Keflavík vann stórsigur í markasúpu
Keflavíkurstúlkur unnu annan stórsigurinn í röð í kvöld þegar þær rótburstuðu lið U.M.F. Bessastaða, 0-12, á útivelli. Bergey Erna Magnúsdóttir skoraði fjögur mörk, Hrefna Magnea Guðmundsdóttir gerði þrjú, Guðný Þórðardóttir skoraði tvö Lilja Íris Gunnarsdóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir og Inga Lilja Eiríksdóttir skoruðu sitt markið hvort.
Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari stúlknanna, var að vonum ánægð með sigurinn sem hefði hæglega getað orðið mun stærri. „Það er ekki hægt annað en að vera nokkuð sátt, en samt vorum við að klúðra 12-15 góðum færum í leiknum.“
Eins og flestir vita unnu þær Hauka, 10-0, í síðasta leik en Ásdís segir gengið ekki koma sér á óvart í sjálfu sér. „Við vissum það fyrirfram að flest liðin í riðlinum eru mun veikari og HK/Víkingur er í raun eina liðið sem í svipuðum styrkleika. Við spilum næst við þær heima og þessir þrír leikir milli okkar í riðlinum eiga eftir að skipta öllu máli.“
Mynd: Úr safni