Keflavík vann stórsigur á Stjörnunni í Hitaveitumótinu í knattspyrnu
Hið árlega Hitaveitumót í knattspyrnu hófst í gær. Í karlaflokki keppa Fylkir, FH og Stjarnan ásamt gestgjöfunum í Keflavík. Í kvennaflokki mæta KR, ÍBV og Stjarnan til leiks auk Keflvíkinga.
Mótið hófst í gær með tveimur leikjum í karlaflokki. Keflavík vann stórsigur á Stjörnunni, 8-0. Hörður Sveinsson skoraði þrjú mörk í leiknum, Hólmar Örn Rúnarsson og Magnús Þorsteinsson skoruðu báðir tvö og Stefán Gíslason eitt mark. Fylkismenn sigruðu FH í hinum leiknum, 5-2, þar sem Björgólfur Takefusa, Helgi Valur Daníelsson, Sigurjón Kevinsson, Valur Fannar Gíslason og Kristján Valdimarsson skoruðu fyrir Fylki en Guðmundur Sævarsson og Jón Þorgrímur Stefánsson skoruðu mörk FH.
Keflavík og Fylkir munu því leika til úrslita á sunnudaginn kl. 19.15. Stjarnan og FH leika hins vegar um 3. sætið í mótinu kl. 17.15.
Kvennaliðin byrja á laugardaginn en þá leika Keflavík og Stjarnan kl. 12.00, en leikur KR og ÍBV hefst kl. 14.00. Úrslit hjá þeim verða á sunnudaginn, leikurinn um 3. sætið fer fram kl. 9.30, en úrslitaleikurinn verður kl. 13.00. Aðgangur er ókeypis og hvetja aðstandendur mótsins áhugasama til að mæta og fylgjast með. Mótið er liður í undirbúningi liðanna fyrir deildarkeppnina í sumar.