Keflavík vann Njarðvík í baráttuleik - staðan 1-0
Keflvíkingar tóku forystuna í undanúrslitaviðureigninni við Njarðvík í Iceland Express deildinni í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Eftir mjög jafnan leik höfðu heimamenn betur. Lokatölur urðu 89-78 en í hálfleik var Keflavík yfir 44-42.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu að leggja allt í sölurnar. Njarðvíkingar höfðu þurft að lúta í lægra haldi í síðustu tveimur viðureignum en nú var allt annað að sjá þá grænu. Mikil barátta, stuð og stemmning og það skilaði sér inn í leikinn því heimamenn voru í svipuðum málum, gáfu ekkert eftir og liðin skiptust á að hafa forystu.
Nick Bradford sem mörgum finnst ekki hafa sýnt það sem í honum býr í vetur lét heldur betur finna fyrir sér og var maður leiksins í fyrri hálfleik. Hann stal hvað eftir annað boltanum af heimamönnum og skoraði 17 stig, rétt tæplega annað hvert stig þeirra grænu. Hann dró vagninn en félagar hans, þeir Jóhann Árni Ólafsson, Guðmundur Jónsson og Magnús Gunnarsson voru honum til stuðnings. Byrjunarlið Keflvíkingur, Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Draelon Burns, Sigurður Þorsteinsson og hinn hárprúði Urule Igbavboa skiptu 44 stigunum á milli sín í fyrri hálfleiknum.
Í upphafi þriðja leikhluta náðu Njarðvíkingar forystu og þeir leiddu allan leikhlutann og virtust líklegri til að klára dæmið en þá kom að þætti Draelons Burns sem skoraði tíu stig og þá fengu heimamenn meira blóðbragð í munninn og náðu að snúa stöðunni sér í vil og leiddu með 4 stigum í lok þriðja leikhlutans, 65-61.
Það var ekki aftur snúið. Njarðvíkingar náðu ekki að stoppa Keflvíkinga sem bættu við forskotið og innbyrtu ellefu stiga sigur. Lokakarfan var glæsileg þegar Burns gaf inn í teig þar sem Hörður Axel kom aðvífandi, greip boltann og saltaði í sár Njarðvíkinga með því að troða svona í blálokin – við gríðarlegan fögnuð keflvískra áhagenda sem fögnuðu innilega sigri í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum.
Draelon Burns skoraði mest hjá Keflavík, 26 stig en Hörður Axel Vilhjálmsson var bestur hjá Keflavík, skoraði 21 stig, tók sjö fráköst og jafn margar stoðsendingar fóru til félaga hans. Þá var framlag hans í vörninni mikið. Gunnar Einarsson var með 15 stig og drjúgur að vanda.
Bradford átti stórleik hjá Njarðvík, skoraði 27 stig og nú könnuðust áhorfendur við kappann, bæði þeir grænu og eins hans gömlu áhagendur úr Keflavík. Næstur honum var Jóhann Árni sem hefur verið vaxandi í síðustu leikjum. Magnús skoraði 11 stig en var ekki heitur í þristunum, aðeins einn af sjö fór ofaní.
Heimamenn voru allir mjög baráttuglaðir í vörn og sókn og sama má segja um Njarðvíkinga. Þessi leikur gat farið hvernig sem var og ljóst að næstu leikir verða jafnir miðað við hungur beggja liða í að komast alla leið. Það er eitthvað sem körfuboltaáhagendur í bæjarfélaginu vilja sjá, ekki eins og síðustu þrjá leiki liðanna í vetur þar sem Njarðvík vann einn stórsigur og Keflavík í hinum tveimur. Þá var minna gaman á leikjunum.
„Við áttum að klára þetta þegar við náðum forystu í þriðja leikhluta en náðum ekki að halda haus. Við tökum næsta leik,“ sagði Friðrik Stefánsson sem var sterkur í Njarðvíkurliðinu, skoraði 5 stig og tók 8 fráköst.
„Við héldum haus þegar þeir náðu forystu. Það skiptir máli í svona jöfnum leikjum. Mér fannst við þó klikka of mikið í auðveldum skotfærum og við gerðum okkur þetta svolítið erfitt fyrir. Það verður svaka leikur í Ljónagryfjunni því Njarðvíkingarnir eru góðir og vel þjálfað lið en við stefnum auðvitað ekki á neitt annað en sigur,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson.
Áhorfendur fylltu Toyota höllina í kvöld og ljóst að Ljónagryfjan verður troðfull á fimmtudaginn þegar liðin mætast á nýjan leik.
Jóhann Árni skorar tvö af fimmtán stigum sínum í leiknum.
Nick Bradford í baráttunni undir körfunni við Hörð Axel og Draelon Burns en þeir þrír voru bestu menn vallarins í kvöld. Á efstu myndinni berjast þeir Guðmundur Jónsson og Hörður Axel um boltann, einu sinni sem oftar í þessum leik.
Fleiri myndir í ljósmyndasafni vf.is og videofrétt væntanleg á morgun, þriðjudag.
Ljósmyndir: Páll Orri Pálsson og Sölvi Logason.
Texti: Páll Ketilsson.