Keflavík vann Íslandsmeistara FH
Keflavík hafði betur gegn Íslandsmeisturum FH, 3-1, í Fótbolta.net mótinu en liðin áttust við í dag í Reykjaneshöllinni. Jóhann Birnir Guðmundsson kom Keflavík yfir á 42. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu. FH-ingar jöfnuðu hins vegar rétt fyrir hlé og var þar að verki Björn Daníel Sverrisson.
Ray Anthony Jónsson kom inn á í hálfleik og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið. Ray kom nýverið til félagsins frá Grindavík. Keflavík náði aftur forystunni á 53. mínútu þegar Frans Elvarsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu.
Í viðbótartíma gulltryggði Elías Már Ómarsson Keflavík 3-1 sigur eftir að hafa sloppið einn í gegnum vörn FH. Halldór Kristinn Halldórsson lék einnig síðari hálfleikinn með Keflavík í dag en hann er á reynslu hjá félaginu um þessar mundir.
Keflavík 3 - 1 FH
1-0 Jóhann Birnir Guðmundsson ('42)
1-1 Björn Daníel Sverrisson ('45)
2-1 Frans Elvarsson ('53)
3-1 Elías Már Ómarsson ('93)