Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík vann Grindavík
Mánudagur 22. mars 2004 kl. 21:17

Keflavík vann Grindavík

Keflavík vann Grindavík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik. Lokatölur voru 116-105 eftir frábæran leik sem bauð upp á taumlausa skemmtun og spennu.

Fyrstu mínúturnar gáfu tóninn fyrir það sem í vændum var þar sem Keflavík náði frumkvæðinu og baráttan var gífurleg undir körfunum þar sem Jackie Rogers og Derrick Allen bárust á banaspjótum.
Arnar Freyr Jónsson tók í leiknum enn eitt skrefið í átt til þess að geta talist einn allra besti bakvörður deildarinnar og lék hreint óaðfinnanlega. Hann er farinn að sýna meiri áræðni í sókninni og er ekki feiminn við að taka skot þegar liðið þarf á því að halda. Arnar sannaði það með því að hitta úr tveimur 3ja stiga körfum með stuttu millibili og kom Keflvíkingum í 14-9.
Grindvíkingar voru þó alls ekki af baki dottnir þar sem Helgi Jónas Guðfinnsson minnti á sig með látum og hitti úr tveimur 3ja stiga körfum.
Heimamenn leituðu mikið undir körfuna í fyrsta leikhluta þar sem Allen og Fannar Ólafsson fóru mikinn.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 35-28 sem segir meira en mörg orð um það hve hraður leikurinn var.
Grindvíkingar sóttu í sig veðrið í upphafi annars leikhluta og minnkaði muninn niður í eitt stig eftir 4 mínútur. Keflvíkingar stóðu þó af sér ásókn gestanna og héldu forskotinu. Helgi Jónas hélt áfram að rigna niður þristum og var kominn með 5 slíka úr jafnmörgum tilraunum, en það dugði þó ekki til að vinna upp forskotið fyrir hálfleik þar sem staðan var 59-53 fyrir heimaliðið.

Páll Axel Vilbergsson tók af skarið fyrir Grindvíkinga í upphafi seinni hálfleiks og á fyrstu þremur mínútunum höfðu þeir jafnað og komist einu stigi yfir, 63-64.
Keflavík var ekki lengi að ná forskotinu að nýju, en liðin skiptust á að leiða næstu mínútur. Undir lok leikhlutans náðu heimamenn forystu og Nick Bradford setti glæsilegt sniðskot um leið og lokaflautið gall.
Í upphafi síðasta leikhluta var mönnum orðið ansi heitt í hamsi enda var baráttan búin að vera með ólíkindum allan leikinn. Keflvíkingarnir höfðu þó, sem fyrr, ágæt tök á leiknum þar til rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá tóku Grindvíkingar góðan kafla þar sem þeir skoruðu 7 stig í röð og staðan var orðin 104-103. Heimamenn virtust vera á undanhaldi, en voru alls ekki slegnir út af laginu og fóru að henda niður 3ja stiga körfum eins og þeir væru einir inni á vellinum. Vörn Grindvíkinga virkaði stirð og Magnús Þór Gunnarsson setti niður 3 þrista eins og ekkert væri sjálfsagðara og kláraði leikinn.

Falur Harðarson var ólíkt ljúfari á manninn í kvöld en eftir fyrri leik liðanna og var ánægður með skemmtilegan leik. „Nú erum við á sama reit og fyrir leikinn í Grindavík. Þessi leikur bauð upp á allt sem maður vildi sjá og mikla baráttu. Svona á þetta að vera! Við löguðum allt sem við ætluðum að laga úr síðasta leik og spiluðum vel í allar 40 mínúturnar.“

Friðrik Ingi var óánægður með varnarleik sinna manna í lokin og taldi að ekki hefði mátt muna miklu í síðasta leikhlutanum til að þeir kæmust framúr. „Við klikkuðum á grundvallaratriðum í varnarleik í lokin. Við erum ekki sáttir við okkar leik og skuldum okkur sjálfum að spila betri vörn í næsta leik.“

Hér má finna tölfræði leiksins

VF-myndir: Tobbi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024