Keflavík valtaði yfir UMFG - sýður á Njarðvíkingum eftir 11. tapið
Keflvíkingar halda áfram að fara mikinn í Domino’s deild karla í körfubolta og unnu stórsigur á grönnum sínum í Grindavík. Þeir fóru hamförum í leiknum og hreinlega völtuðu yfir Grindvíkinga og unnu 33 stiga sigur, 82-115.
Gestirnir úr Keflavík skoruðu 39 stig gegn aðeins 7 stigum Grindvíkinga í fyrsta leikhluta og gerðu hreinlega út um leikinn. Calvin Burks átti sinn besta leik með Keflavík og skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og sendi 9 stoðsendingar.
Njarðvíkingar töpuðu ellefta leiknum í sínum á tímabilinu og þeim sjötta í röð gegn Val
Keflvíkingar eru með sex stiga forskot á toppnum og ættu að vera öruggir með það þegar úrslitakeppnin hefst. Njarðvíkingar eru í bullandi fallhættu eftir tveggja stiga tap gegn Val í fyrrakvöld og eru 4 stigum frá 8. sætinu sem er síðasta sætið í úrslitakeppnina. Mikil óánægja er meðal stuðningsmanna liðsins sem nú vonast bara til að liðið falli ekki.
Gunnar Örlygsson, fyrrverandi leikmaður og harður stuðningsmaður UMFN tjáði sig á Facebook eftir ellefta tapið og sagði: „Það er margt sem mig langar að skrifa og segja enda sýður á mér yfir svo mörgu með liðið. Gott að láta eldgosið á Reykjanesi duga og halda sér á mottunni. Liðið sýndi á köflum hvað í því býr. Nú er það eina sem skiptir máli að halda okkur efstu deild svo hægt verði að stokka upp spilin fyrir næsta tímabil. Áfram Njarðvík.“
Grindavík-Keflavík 82-115 (7-39, 31-20, 22-30, 22-26)
Grindavík: Dagur Kár Jónsson 18/5 fráköst, Joonas Jarvelainen 12/4 fráköst, Marshall Lance Nelson 11/4 fráköst/9 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 10/8 fráköst/5 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 8/4 fráköst, Amenhotep Kazembe Abif 8/7 fráköst, Kristinn Pálsson 7/4 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Bragi Guðmundsson 3, Nökkvi Már Nökkvason 2, Sverrir Týr Sigurðsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.
Keflavík: Calvin Burks Jr. 28/8 fráköst/9 stoðsendingar, Dominykas Milka 23/9 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/4 fráköst/11 stoðsendingar, Ágúst Orrason 16, Reggie Dupree 10, Arnór Sveinsson 9, Deane Williams 8/7 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Valur Orri Valsson 3/7 stoðsendingar, Almar Stefán Guðbrandsson 2/4 fráköst, Magnús Pétursson 0, Guðbrandur Helgi Jónsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0.