Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík valtaði yfir Hauka
Mánudagur 13. febrúar 2006 kl. 16:33

Keflavík valtaði yfir Hauka

Keflavík rúllaði Haukum upp í IE – deild karla í gær en leikurinn fór fram að Ásvöllum. Lokatölur urðu 76 – 102 Keflavík í vil en A.J. Moye var drjúgur hjá Keflavík með 31 stig og 9 fráköst.

Strax að loknum 1. leikhluta var Keflavík komið með 10 stiga forystu 20 – 30 en staðan í hálfleik var 37 – 52 Keflavík í vil.

Íslandsmeistararnir bættu svo verulega í þegar leið á seinni hálfleik og uppskáru að lokum 26 stiga sigur 76 – 102. Gunnar Einarsson fann sig vel í Keflavíkurliðinu í gær og setti niður 15 stig og gaf 6 stoðsendingar. Hjá Haukum var Jason Pryor með 25 stig.

„Þetta var rólegur leikur og ekki sérlega erfiður,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga í samtali við Víkurfréttir. „Ég er ekki alveg kominn að bikarleiknum í huganum en það fer að bresta á. Það er alltaf gaman að fara í Höllina en fyrri viðureignir liðanna eru ómarktækar þegar í Höllina er komið. Við ætlum bara að hafa líf og fjör í okkar leik og þá verðum við í góðum málum,“ sagði Sigurður að lokum.

Vlad Boer var vikið af leikvelli í gær en hann fer ekki í bann, dómarar leiksins töldu ekki ástæðu til þess að gera meira úr málinu en einhver hiti hljóp í Vlad í leiknum. Hann verður því tiltækur þegar Keflavík leikur gegn Grindavík í Höllinni 18. febrúar.

Keflvíkingar eru enn í 2. sæti Iceland Express deildarinnar eftir sigurinn á Haukum í gær með 26 stig, 4 stigum á eftir Njarðvík á toppnum.

VF - mynd/ Arnar Freyr Jónsson gerði 13 stig í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024