Keflavík úr leik í Mjólkurbikar kvenna
Keflavík lék gegn Fylki á útivelli í kvöld í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu. Varnir Keflvíkinga brustu á síðasta hálftímanum og Fylkir vann stórsigur, 5:1.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill í Árbænum, fá færi og lítið að gerast. Rétt áður en hálfleikur brast á náði Fylkir þó forystunni (45'+1) og leiddu 1:0 í hálfleik.
Stutt var liðið á síðari hálfleik þegar Keflvíkingar fengu hornspyrnu og Kristrún Ýr Hólm jafnaði leikinn (55'). Dröfn Einarsdóttir fékk fínt færi skömmu síðar til að koma Keflavík í forystu en skot hennar fór yfir markið og Fylkir refsaði að bragði með marki (60'). Fylkir jók forystuna þremur mínútum síðar og staðan orðin 3:1.
Keflvíkingar náðu sóknarleiknum ekki á strik og tókst ekki að ógna marki Fylkis, heimaliðið bætti tveimur mörkum við í uppbótartíma (90'+1 og 90'+4) og Keflavík hefur því lokið þátttöku sinni í bikarkeppninni þetta árið.