Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tekur á móti Selfossi í kvöld
Mánudagur 31. maí 2010 kl. 09:21

Keflavík tekur á móti Selfossi í kvöld

Keflvíkingar taka á móti Selfyssingum í 5. umferð Pepsí-deildarinnar í köld. Leikurinn fer fram á Njarðtaksvellinum í Njarðvík, þar sem heimavöllur Keflavíkur er þar til Sparisjóðsvöllurinn í Keflavík verður leikhæfur. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er heilmikil spenna í loftinu fyrir þennan leik en lið Selfoss hefur byrjað frábærlega á fyrsta ári sínu í efstu deild og Keflavík er auðvitað í efsta sæti deildarinnar. Það má því reikna með hörkuleik, fjölda áhorfenda og mikilli stemmningu. Dómari verður hinn eldhressi Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar hans verða Einar Sigurðsson og Eðvarð Eðvarðsson en eftirlitsmaður KSÍ er Eyjólfur Ólafsson, segir á heimasíðu Keflavíkur.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um fyrri leiki þessara liða í efstu deild enda leika Selfyssingar þar í fyrsta sinn. Liðin hafa hins vegar leikið eina átta leiki í næstefstu deild, þá fyrstu árið 1981 og síðast árið 1992. Keflavík vann fimm leikjanna en þremur þeirra lauk með jafntefli. Markatalan er 20-4 fyrir Keflavík.

Liðin hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppninni og hefur Keflavík alltaf sigrað. Liðin léku fyrst í 16 liða úrslitum árið 1974 og þá skoraði Steinar Jóhannsson eina mark leiksins á Selfossi. Liðin mættust aftur í 16 liða úrslitum árið 1988 og þá vann Keflavík í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli á Keflavíkurvelli. Keflavík vann aftur nauman heimasigur árið 1990 þegar Selfyssingar komu í heimsókn í 8 liða úrslitum keppninnar en þeim leik lauk 3-2. Liðin léku síðast bikarleik árið 2002 og þá vann Keflavík öruggan 4-0 sigur fyrir austan fjall í 32 liða úrslitunum. Þess má geta að Magnús Þorsteinsson skoraði tvö mörk í þeim leik en hann er eini af núverandi leikmönnum Keflavíkur sem hefur skorað gegn Selfossi enda hafa liðin ekki mæst oft undanfarin ári. Ómar Jóhannsson, Haraldur Freyr Guðmundsson og Hólmar Örn Rúnarsson tóku reyndar einnig þátt í þeim leik og liðsstjórinn Jón Örvar Arason kom inn á sem varamaður!

Það hefur ekki verið mikill samgangur milli Keflavíkur og Selfoss í gegnum árin. Selfyssingurinn Anton Hartmannsson var varamarkmaður Keflavíkur árið 1997 og lék í síðasta leiknum það sumarið. Sonur Antons, Einar Ottó, er nú leikmaður Selfoss en hann var í okkar herbúðum árið 2003 og lék þá nokkra bikarleiki með U-23 ára liði Keflavíkur, segir í fróðlegri samantekt á Keflavik.is.