Keflavík tekur á móti FH og Grindavík í Frostaskjólið
Það lætur enginn sig vanta á Sparisjóðsvöllinn í kvöld kl. 19:15 þegar Keflvíkingar taka á móti FH í 10. umferð Pepsi-deildarinnar. Á vef Keflavíkur segir: „Sjálfir Íslandsmeistararnir í heimsókn, okkar menn að verja toppsæti deildarinnar og síðast en ekki síst verður völlurinn okkar vígður eftir gagngerar endurbætur“.
Fyrir leikinn er Keflavík í efsta sæti Pepsi-deildarinnar með 18 stig en FH-ingar eru í því 6. með 14 stig. Það munar því ekki mörgum stigum á liðunum í efri hluta deildarinnar og hvert stig er dýrmætt. Dómari leiksins verður Erlendur Eiríksson og aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson. Einar K. Guðmundsson er svo eftirlitsmaður KSÍ.
Keflavík og FH hafa leikið 40 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975. Keflavík hefur unnið 10 leiki, FH hefur unnið 17 en jafntefli hefur orðið í 13 leikjum. Markatalan er 53-61, FH-ingum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærsta tap gegn FH kom árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði. Sex leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hefur skorað gegn FH í efstu deild; Magnús Þorsteinsson hefur skorað fimm mörk og þeir Guðjón Antoníusson, Hólmar Örn Rúnarsson, Guðmundur Steinarsson, Haukur Ingi Guðnason og Jóhann B. Guðmundsson hafa skorað eitt mark hver gegn FH.
Liðin hafa einnig mæst níu sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast nú á dögunum. Bæði lið hafa unnið fjóra leiki en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 12-9 fyrir Keflavík. Guðmundur Steinarsson hefur gert tvö bikarmörk gegn FH-ingum og þeir Haraldur Freyr Guðmundsson, Paul McShane og Guðjón Árni Antoníusson eitt hver en Haraldur Freyr og Paul skoruðu einmitt í bikarleiknum gegn FH-ingum í síðasta mánuði.
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin. Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma. Meðal leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru markverðirnir Gunnleifur Gunnleifsson og Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Kristján Hilmarsson, Valþór Sigþórsson og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir. Ómar Karl Sigurðsson var svo í herbúðum FH-inga um skamma hríð en lék ekki með aðalliði félagsins.
KR-GRINDAVÍK
Grindavík mætir KR á KR-velli í Pepsideild karla í knattspyrnu í kvöld, sunnudag, kl. 19:15. Leikurinn verður 29. deildarleikur KR og Grindavíkur. KR-ingar hafa sigrað í 16 leikjum, Grindvíkingar í sex en sex leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 50-25 KR í hag.
Grindavík er í 11. sæti með 6 stig en KR í því 9. með 9 stig. Með sigri getur Grindavík því komist upp að hlið KR. Hjá Grindavík vantar Orra Frey Hjaltalín fyrirliða sem er enn frá vegna höfuðmeiðsla. Að öðru leiti eru allir klárir í slaginn.