Keflavík tekur á móti Breiðabliki í kvöld
Í kvöld er komið að enn einum toppleiknum þegar Blikar heimsækja Keflavík í 12. umferð Pepsí-deildarinnar. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum og hefst kl. 20:00. Fyrir umferðina er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 19 stig en Breiðablik er í efsta sætinu ásamt Eyjamönnum með 23 stig.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið 43 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1971. Keflavík hefur unnið 21 leik og Breiðablik 12 en tíu leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 79-60 fyrir Keflavík. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 5-0 sigur árið 2006 en Breiðablik vann 3-0 sigur á heimavelli árið 1982 og í Keflavík í fyrra.
Átta leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Blikum í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað fimm mörk, Haukur Ingi Guðnason fjögur og þeir Alen Sutej, Magnús Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson hafa skorað eitt mark hver.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið sjö leiki í næstefstu deild, fyrst árið 1957 og síðast árið 2003. Keflavík vann sex leikjanna en Breiðablik einn og markatalan er 25-6 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson skoraði þrjú mörk gegn Breiðabliki í B-deildinni árið 2003 og Hörður Sveinsson eitt.
Liðin hafa leikið sjö leiki í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1961 og þann síðasta í fyrra. Breiðablik hefur unnið fimm leiki en Keflavík tvo en markatalan er þó 17-12 fyrir Keflavík í bikarleikjum liðanna. Guðjón Árni Antoníusson hefur skorað tvö bikarmörk gegn Blikum og Guðmundur Steinarsson eitt.
Fyrr í sumar mættust liðin í 1. umferðinni í Pepsi-deildinni. Keflavík vann í hörkuleik og skoraði Alen Sutej eina mark leiksins.