Keflavík tapar stórt í Eyjum
Keflavík tapaði stórt í leik sínum gegn ÍBV í Landsbankadeild karla í kvöld. Lokatölur voru 4-0, versta tap liðsins í mörg ár.
Það má vissulega til sanns vegar færa að það eina sem Keflvíkingar fengu út úr leiknum hafi verið veðrið því að allar aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru eins og best verður á kosið og sólin skein á leikmenn og áhorfendur.
Leikurinn hófst á rólegu nótunum þar sem liðin voru að leita að glufu hjá mótherjanum. Keflavík var meira með boltann en Eyjamenn voru að koma sér í betri færi.
Á 24. mínútu dró loks til tíðinda þegar ÍBV komst yfir eftir vandræðagang í vörn Keflvíkinga. Varnarmönnunum mistókst að hreinsa boltann úr markteignum og eftir talsvert fát hrökk boltinn af Ólafi Ívari Jónssyni í eigið mark.
Á ýmsu gekk fram að leikhléi og voru Eyjamenn mun skeinuhættari. Þeir skoruðu m.a. tvö mörk sem voru dæmd af, annað vegna rangstöðu á 32. mínútu og hitt undir lok hálfleiksins, en dómari hafði þá stöðvað leikinn áður en skotið reið af vegna meiðsla Ólafs Gottskálkssonar í marki Keflavíkur.
Á upphafsmínútum seinni hálfleiks gerðu Eyjamenn nánast út um leikinn því að vörn Keflvíkinga sofnaði aftur á verðinum og Gunnar Heiðar Þorvaldsson læddi boltanum í netið innan úr vítateig. Eftir það var sem allur vindur væri úr gestunum og þeir gerðu sig ekki líklega til að komast aftur inn í leikinn eftir þetta mark.
Á 66. mín juku heimamenn enn forskotið þegar Magnús Már Lúðvíksson kom þeim i 3-0 með góðu skoti úr teignum eftir vandaða sendingu frá vinstri kanti.
Eftir það biðu leikmenn og áhorfendur eftir því að flautað yrði til leiksloka og lítið gekk hjá lánlausum Keflvíkingum. Þeir voru engu að síður studdir duglega af fámennu, en háværu stuðningsmannaliði sem gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Undir lokin, á 82. mín nánar til tekið, fengu Eyjamenn svo víti sem Gunnar Heiðar afgreiddi snyrtilega í hægra hornið. Það reyndist náðarhöggið og stórtap staðreynd.
„Þetta var hrikalegt“, sagði Þórarinn Kristjánsson, framherji Keflavíkur, í leikslok. „Það gekk ekkert og við vorum bara hrikalega lélegir í dag! Það er þó ekki hægt að fara mikið neðar en þetta og ég lofa því að við komum sterkir í næsta leik og tökum Skagann heima.“
Milan Stefán Jankovic tók í sama streng og sagði fyrsta markið hafa verið vendipunkt í leiknum. „Þetta gekk alveg ágætlega þar til við fengum markið á okkur en þá hrundi allt. Við vorum ekki góðir í dag. Okkur vantaði einbeitingu og svo gáfum við þeim þrjú ódýr mörk, en þeir voru bara grimmari og ég vil óska þeim til hamingju með sigurinn.“
Keflavík er, þrátt fyrir tapið, enn í öðru sæti deildarinnar en gæti fallið um nokkur sæti þegar umferðinni lýkur á morgun.
VF-ljósmyndir/Þorgils Jónsson