Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tapaði stórt - Oddaleikur á miðvikudag
Mánudagur 21. mars 2011 kl. 21:10

Keflavík tapaði stórt - Oddaleikur á miðvikudag

Annar leikur í einvígi Keflvíkinga og ÍR fór fram í kvöld í Seljaskóla. ÍR-ingar mættu ákveðnir til leiks og skoruðu 106 stig á Keflvíkinga sem greinilega fundu sig ekki í varnarleiknum. Lokatölur 106-89 ÍR í vil. Liðin mætast svo í oddaleik á miðvikudag í Toyotahöllinni þar sem ræðst hvort liðið kemst í undanúrslit.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

ÍR-ingar ætluðu sér greinilega ekki í sumarfrí strax og byrjuðu gríðarlega vel. Eftir um tveggja mínútna leik var staðan orðin 9-0 fyrir heimamenn og Keflvíkingar tóku þá umsvifalaust leikhlé. Ekki virtist það þó kæla ÍR-inga niður og þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan orðin 18-4 ÍR í vil. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var svo 31-13 fyrir ÍR og Breiðhyltingar að hitta úr 65% skota sinna sem þykir mjög gott.

Keflvíkingar voru ekki tilbúnir að gefast upp og sneru dæminu við í öðrum leikhluta. Hörður Axel byrjaði á því að troða boltanum og setja niður þriggjastiga körfu. Magnús Gunnarsson setti annan þrist í kjölfarið og Keflvíkingar komnir í gang. Á þessu tímabili skoruðu Keflvíkingar 13 stig gegn engu frá heimamönnum. ÍR-ingar rönkuðu þó við sér og þegar sjö mínútur voru til leikhlés var staða 39-23 ÍR í hag. Suðurnesjamenn söxuðu þó jafnt og þétt á forskot ÍR-inga og þegar hálfleiksflautan gall var munurinn aðeins þrjú stig, 49-46 fyrir heimamenn í ÍR.

Atkvæðamestir í leikhlé voru Sigurður Þorsteinsson með 12 stig og 4 fráköst og Hörður Axel var drjúgur með 9 stig sem og Thomas Sanders.

Það var ekki liðin nema rúm mínúta af seinni hálfleik þegar Keflvíkingar höfðu jafnað, 51-51. Skömmu síðar komust þeir svo yfir í fyrsta sinn í leiknum 54-56 og Sigurður Þorsteinsson var að reynast ÍR-ingum erfiður. Þá tók við leikkafli þar sem ÍR skoraði 11 stig án þess að Keflvíkingar næðu að svara og fóru heimamenn með níu stiga forystu inn í lokaleikhlutann, 73-64.

ÍR hleypti Keflavík í raun aldrei nálægt sér í fjórða leikhluta. Heimamenn juku forskotið hægt og bítandi og lönduðu að lokum öruggum 17 stiga sigri 106-89 og ljóst að oddaleikur fer fram í Sláturhúsinu á miðvikudag.

Atkvæðamestir hjá Keflavík: Sigurður Þorsteinsson 27/10 fráköst, Magnús Gunnarsson 19, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/6 fráköst, Thomas Sanders 9, Gunnar Einarsson 8

Hjá ÍR var Kelly Biedler með 27 stig/ 12 fráköst og Nemanja Sovic 22 stig/ 10 fráköst.

Sigurður Þorsteinsson var ÍR-ingum erfiður í kvöld en það dugði þó ekki til

EJS