Keflavík tapaði gegn Val
Keflavík tapaði gegn Val í Domino´s-deild kvenna í körfu í kvöld en leikur kvöldsins var mikilvægur vegna heimaleikjaréttar í úrslitakeppninni. Keflavík byrjaði leikinn vel og komst á gott skrið í fyrsta leikhluta, en Valur komst síðan inn í leikinn og leiddi í fyrsta leikhluta 23-21. Í öðrum leikhluta kom Brittanny Dinkins sterk inn í liði Keflavíkur en það dugði ekki til og Valur leiddi í hálfleik með 12 stigum 52-40.
Í þriðja leikhluta var svipaða sögu að segja, Keflavík átti stutta góða kafla og Valur var alltaf með svör á reiðum höndum. Valur leiddi eftir þriðja leikhluta 67-54. Fátt gekk upp hjá Keflavík í fjórða leikhluta og voru lokatölur leiksins 89-66 og Valur þar með búinn að tryggja sér heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Brittanny var með þrennu í kvöld og skoraði hún 13 stig, tók 15 fráköst og var með 10 stoðsendingar. Eftir leik kvöldsins er Keflavík í þriðja sæti.
Aðrir stigahæstu leikmenn Keflavíkur voru Thelma Dís Ágústsdóttir 16 stig og 7 fráköst,, Erna Hákonardóttir 11 stig, Elsa Albertsdóttir 8 stig og 5 fráköst og Birna Valgerður Benónýsdóttir 7 stig.