Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tapaði gegn KR eftir frábæra byrjun
Mánudagur 28. mars 2011 kl. 21:18

Keflavík tapaði gegn KR eftir frábæra byrjun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar máttu þola tap á heimavelli KR þegar liðin mættust í fyrsta leik úrslitarimmu Iceland Express deildar karla í körfubolta í kvöld í DHL höllinni í vesturbænum. KR sigraði 87-79.

 

Keflvíkingar byrjuðu með látum og létu KR finna verulega fyrir sér. Keflvíkingar komust í 14-0 með svakalegri keyrslu en KR skoraði ekki fyrstu fjórar og hálfa mínúturnar. Keflavík spilaði frábæra vörn og komust KR-ingar ekkert áleiðis. Andrija Ciric var allt í öllu ásamt Thomas Sanders og KR-ingar varla mættir í leikinn. Í lok fyrsta fjórðungs leiddi Keflavík með 15 stigum, 11-26.

 

KR-ingar komu svo í öðrum fjórðungi með frábæran varnarleik sem Keflvíkingar réðu lítið við. Þeir höfðu lítil ráð og saxaði KR verulega á forskot Keflvíkinga sem var orðið þó nokkuð. Bæði lið fengu dæmda á sig ásetning þar sem hiti var kominn í leikinn og erfitt að hemja menn. Annar fjórðungurinn endaði svo með yfirburðum KR á Keflvík og var staðan í hálfleik 39-34, heimamönnum í vil en seinustu 5 mínúturnar skoruðu Keflvíkingar 3 stig meðan KR skoraði 18 stig.

 

Stigahæstir í liði Keflavíkur í hálfleik voru Andrija Cirik með 10 stig, og Thomas Sanders og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru með sitt hvor 8 stigin.

 

Seinni hálfleikur byrjaði frekar jafn en KR-ingar aðeins sterkari aðilinn. KR skaut mikið fyrir utan þriggja stiga línuna og þegar 6 mínútur voru liðnar af þriðja fjórðungi var staðan 51-43 fyrir heimamönnum. Mikill pirringur var í leikmönnum Keflavíkur enda lítið að ganga upp hjá þeim, sérstaklega í varnarleiknum. Villurnar týndust inn ein af annarri og mikið um brot.

 

KR-ingar héldu áfram að setja niður þriggja stiga körfur en Keflavík reyndi þó að svara fyrir vikið. Keflvíkingar komu sterkir til baka í lokin á þriðja fjórðungi og þegar rétt tæpar tvær mínútur voru eftir af fjórðunginum var staðan 56-53 fyrir KR.  Keflavík fékk svo tvær villur og körfur góðar. Leikhlutinn endaði svo þannig að heimamenn leiddu með þremur stigum, 62-59 þar sem Thomas Sanders var allt í öllu í liði Keflavíkur með 13 stig í fjórðungnum, 21 stig alls.

 
Fjórði leikhluti var svo lítið öðruvísi en hinir þrír þar sem leikurinn var KR megin og þeir ekkert á leiðinni að gefa hann upp. Keflvíkingar voru búnir að játa sig sigraða þegar líða tók á klukkuna og KR sigraði 87-79.

Stigahæstir í liði Keflavíkur voru Thomas Sanders með 28 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Andrija Ciric með 16 stig og 5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 11 stig og 10 fráköst og Hörður Axel Vilhjálmsson með 10 stig og 9 fráköst. Miklu munaði að þriggja stiga skot Keflvíkinga gengu mjög illa. Lykilmenn eins og Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson hafa ekki náð sér á strik í undanförnum leikjum. 

Stigahæstur í liði KR var Marcus Walker með 33 stig.

VF-Mynd: Siggi Jóns - [email protected]