Keflavík tapaði gegn ÍR


Keflavík tók á móti ÍR í lokaumferð Domino´s-deildar karla í körfu í kvöld. Leikurinn var nokkuð jafn alla fjóra leikhlutana og eftir fyrsta leikhluta leiddi Keflavík 24-19, ÍR náði að snúa taflinu við þegar flautað var til hálfleiks og leiddi með einu stigi 40-42.

ÍR náði átta stiga forystu í þriðja leikhluta en í fjórða leikhluta saxaði Keflavík á forskot ÍR-inga og munaði ekki meira en tveim stigum allt til leiksloka. Þegar fimmtán sekúndur eru eftir af leiknum var ÍR þremur stigum yfir og náði Keflavík ekki að skora lokakörfu til að komast í framlengingu. Lokatölur leiksins voru 69-74. Keflavík endaði í áttunda sæti deildarinnar og tryggði sér sæti í úrslitakeppninni en þar mætir liðið Deildarmeisturum Hauka.

Stigahæstu leikmenn Keflavíkur voru Christian Dion Jones 20 stig og 9 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16 stig og 6 stoðsendingar, Reggie Dupree 11 stig, Dominique Elliott 8 stig og 7 fráköst og Guðmundur Jónsson 7 stig og 6 fráköst.