Keflavík tapaði fyrsta leik á heimavelli - mikil vonbrigði segir Falur þjálfari
Keflvíkingar máttu sætta sig við tap á heimavelli í fyrsta leik sínum gegn Haukum í undanúrslitum Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í dag. Lokatölur urðu 54-63 í leik þar sem Haukar voru með í hendi sér nánast frá upphafi. Sigra þarf þrjá leiki til þess að komst í úrslit.
Keflavík komst í 12-5 en Haukar jöfnuðu í 12-12 og náðu eftir það yfirhöndinni og leiddu 18-22 þegar 1. leikhluta lauk.
Þegar rúmar 4 mínútur voru liðnar að öðrum leikhuta þá voru Haukar yfir, 22-27. Telma Lind Ásgeirsdóttir minnkaði þá muninn fyrir Keflavík í 25-27 neð þriggja stiga körfu. Haukar voru þá ávallt með yfirhöndina í fyrri hálfleik og mun meira flæði var í sóknarleik þeirra en heimamanna. Þegar gegngið var til búningsklefa leiddu Haukar 27-35 og það vrikaði þannig að Keflvíkingar væru hálf andlausir. Bæði lið voru að hitta illa fyrir utan en hvort lið fyrir sig setti niður eina þriggja stiga körfu í fyrri hálfleik, Haukar úr 11 tilraunum en Keflvíkingar úr 6.
Jaleesa Butler var langbest Keflvíkinga með 14 stig í hálfleik en auk þess hafði hún hirt 5 fráköst. Þær Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir voru svo með 4 stig hvor en Eboni Mangum var ekki komin á blað.
Hjá Haukum var Tierny Jenkins með 16 stig og 11 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst.
Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn með glæsilegri körfu en boltinn gekk þá hratt á milli allra mann og endaði með því að þær fengu auðvelt sniðskot undir körfunni. Þær fylgdu því svo eftir með þriggja stiga körfu og munurinn fór í 12 stig þegar mest var. Líf færðist hins vegar í Keflvíkinga eftir þessa rispu Hauka og áhorfendur fóru að láta í sér heyra. Þær fóru í svæðisvörn og minnkuðu muninn í 5 stig þegar 4 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta. Haukar héld þó sínu striki og þær hirtu fjölda sóknarfrákasta gegn svæðisvörn Keflvíkinga, sem skilaði þeim auðveldum körfum. Aukin harka færðist í leikinn og þegar að þriðja leikhluta lauk voru Haukar 6 stigum yfir og staðan 43-49.
Nú þurftu Keflvíkingar að spýta í lófana. Pálína Gunnlaugsdóttir hjá Keflavík virtist ekki vera að finna sig og það virtist allt ganga upp hjá Haukum. Fljótlega var staðan orðin 45-55 fyrir Hauka og þær virtust hafa leikinn í hendi sér. Áfram var munurinn 10 stig og Keflvíkingar réðu hreinlega ekkert við Tierny Jenkins í teignum. Þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka þá var munurinn enn 10 stig, 51-61 og ekkert sem benti til þess að Keflvíkingar ætluðu sér sigur í leiknum. Lokatölur urðu 54-63, Haukum í vil en þær spiluðu fínan körfubolta í leiknum og áttu sigurinn skilinn.
Sagt eftir leik:
Falur Harðarson þjálfari Keflvíkinga: „Algert viljaleysi hjá okkur. Það var enginn vilji til þess að standa sig vel hérna í dag.“ Falur vildi ekki kenna stórleik Jenkins um ófarir Keflvíkinga. „Þær hirða yfir 20 sóknarfráköst. Það skipti engu máli hvort við vorum að spila svæðisvörn eða ekki, þær voru bara á undan í alla bolta og vildu þetta meira en við. Við vorum bara á hælunum í varnarleiknum og í sóknarleiknum vantaði allt flæði og allt gerðist of hægt. Þetta eru mikil vonbrigði og þessu þarf að snúa við.“
Stigin: Keflavík: Jaleesa Butler 23/12 fráköst/4 varin skot, Pálína Gunnlaugsdóttir 11/5 fráköst, Eboni Monique Mangum 7, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 4/5 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 4/4 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 3, Sandra Lind Þrastardóttir 2, Hrund Jóhannsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0, Sara Rún Hinriksdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Haukar: Tierny Jenkins 27/20 fráköst, Jence Ann Rhoads 14/9 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 7/5 fráköst, Íris Sverrisdóttir 5, Guðrún Ósk Ámundardóttir 2/4 fráköst, Sara Pálmadóttir 0, María Lind Sigurðardóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.