Keflavík tapaði eftir framlengingu
Keflvíkingar töpuðu fyrsta leik í einvíginu við Tindastól í átta liða úrslitum Subway-deildar karla í körfuknatteik. Eftir að hafa byrjað fjörlega leiddu heimamenn með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta (22:17) en þá fóru gestirnir að ná undirtökunum og fóru inn í hálfleikinn með sex stiga forskot (44:50).
Tindastóll hélt áfram að hafa ágætis tök á leiknum í þriðja leikhluta en þá komust Keflvíkingar á gott skrið og unnu upp tíu stiga mun áður en blásið var til loka þess fjórða. Stólarnir byrjuðu framlenginguna betur og unnu að lokum með sjö stiga mun.
Keflvíkingar áttu mjög góða kafla í leiknum en köstuðu boltanum of oft frá sér í fljótfærnislega útfærðum sóknum. Á sama tíma sulluðu gestirnir niður hverjum þristinum af öðrum og fengu helst til mörg opin skot.
Domynikas Milka var öflugur í leiknum með 26 stig, tólf fráköst og 32 framlagspunkta. Þá leysti Halldór Garðar Hermannsson hlutverk leikstjórnanda með ágætum en hann var með tuttugu stig og átta stoðsendingar.
Keflavík - Tindastóll 107:114
(22:17, 22:33, 23:27, 30:20, 10:17)
Keflavík: Dominykas Milka 26/12 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 20/8 stoðsendingar, Eric Ayala 20/8 fráköst, Igor Maric 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ingi Styrmisson 11/7 fráköst, David Okeke 9, Jaka Brodnik 2, Valur Orri Valsson 2/7 stoðsendingar, Magnús Pétursson 1, Nikola Orelj 0, Grétar Snær Haraldsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.
Það var frábær stemmning á pöllunum og Blue-höllin stappfull eins og má sjá í myndasafni neðst á sínunni sem Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók.