Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Keflavík tapaði botnslagnum
Sunnudagur 27. maí 2018 kl. 18:28

Keflavík tapaði botnslagnum

- Eru með tvö stig eftir sex umferðir

Keflavík tók á móti ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag og urðu lokatölur leiksins 3-1 fyrir ÍBV. Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflvíkinga var ósáttur að fá ekki neitt út úr leiknum. „Við vorum með yfirhöndina í leiknum en uppskeran er engin. Það eru vonbrigði en við verðum að halda áfram. Það er margt jákvætt í okkar leik,“ sagði þjálfarinn í leikslok.

Keflavík gerði eina breytingu á liði sínu frá því í síðasta leik en Lasse Rise kom í byrjunarliðið og Jeppe Hansen fór út. Töluverð rigning var í Reykjanesbæ og var völlurinn því rennandi blautur. Liðin sátu í neðstu sætum deildarinnar fyrir leikinn og var því ljóst að um sex stiga leik var að ræða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Landsliðsmennirnir Arnór Ingvi og Samúel Kári voru heiðursgestir leiksins en leikmennirnir eru báðir uppaldir hjá Keflavík, Arnór hitti stuðningsmenn fyrir leikinn og gaf áritanir í TM höllinni, fyrir leik heilsaði hann leikmönnum en Samúel Kári kom seinna vegna seinkunar á flugi.

Á 17. mínútu komust gestirnir frá Eyjum yfir með marki frá Sindra Snæ Magnússyni, markið kom gegn gangi leiksins en Keflvíkingar höfðu haft yfirhöndina fram að marki gestanna. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir ÍBV en liðið tók yfirhöndina í leiknum eftir markið snemma í fyrri hálfleik.

Sigurbergur Elísson meiddist á 52. mínútu og fór hann út af á börum, Juraj Grizej kom inn á í hans stað. Aron Freyr Róbertsson kom inn á fyrir Adam Árna Róbertsson á 62. mínútu. ÍBV skoraði annað mark sitt í leiknum á 68. mínútu með marki frá Sigurði Grétari Benónýssyni eftir að Sindri Kristinn, markmaður Keflavíkur hafði sparkað boltanum til hans þegar hann ætlaði að hreinsa og koma boltanum í burtu frá markinu.

Lasse Rise hleypti spennu í leikinn á 72. mínútu með skoti í nærhornið og Keflavík því búið að minnka muninn í 1-2.  Leonard Sigurðsson kom inn á fyrir Frans Elvarsson. á 73. mínútu. Einar Orri Einarsson fékk gult spjald á 79. mínútu
ÍBV skoraði sitt þriðja mark á 89. mínútu leiksins en Sindri Snær Magnússon bætti þar með við sínu öðru marki í leiknum. Lasse Rise komst í dauðafæri á 90. mínútu en Halldór Páll, markmaður eyjamanna varði skalla frá honum á marklínu.

Heimamenn voru óheppnir við markið en þeir áttu góð færi og fjórum sinnum fór boltinn í stöng eða þverslá eftir skot þeirra á markið.

Keflavík náði ekki að bæta við öðru marki eða jafna metin undir lok leiksins og verma því botnsæti Pepsi-deildarinnar eftir sex umferðir.

Mörk leiksins:
0-1 Sindri Snær Magnússon ('17)
0-2 Sigurður Grétar Benónýsson ('68)
1-2 Lasse Rise ('72)
1-3 Sindri Snær Magnússon ('89)
 

VF ræddi við Hólmar Örn Rúnarsson og Guðlaug Baldursson, þjálfar eftir leikinn.

Boltinn lendir í slánni eftir skalla frá McAusland.

Boltinn á leið í markið eftir skot Lasse Rise.

Boltinn endaði í stöng eftir skot frá heimamönnum.

 

Keflavík-ÍBV Pepsi 2018