Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tapaði bikarúrslitaleik 2. flokks eftir vítakeppni
Guðjón Pétur Stefánsson var gríðarlega öflugur í vörninni og skapaði oft hættu við mark Vals þegar hann fór fram í föstum leikatriðum. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. október 2022 kl. 13:12

Keflavík tapaði bikarúrslitaleik 2. flokks eftir vítakeppni

Á föstudag lék sameiginlegt lið Keflavíkur, Reynis og Víðis í öðrum flokki gegn Val/KH til úrslita í bikarkeppni KSÍ. Úr varð hörkuleikur tveggja góðra liða og þurfti leikurinn að fara í framlengingu og vítakeppni til að knýja fram úrslit. Vítakeppnin féll með Völsurum að þessu sinni en frábær árangur strákanna hjá Keflavík/Reyni/Víði gefur fögur fyrirheit um bjarta framtíð.
Ásgeir Orri hirðir örugglega fyrigjöf.

Það voru Keflvíkingar sem tóku forystuna snemma með marki Sigurðar Orra Ingimarssonar (7') en hann tók skot utan teigs sem fór yfir markvörð Vals og í markið. Hins vegar kostuðu mistök heimamanna mark skömmu fyrir leikhlé en þá unnu gestirnir boltann á eigin vallarhelmingi, brunuðu hratt upp og Ásgeir Orri Magnússon í marki Keflavíkur gat ekki varist marki einn á móti sóknarmanni (37').

Seinni hálfleikur var markalaus þrátt fyrir að bæði lið sýndu flotta takta. Í fyrri hluta framlengingar tóku Valsarar forystuna (96') en Gabríel Aron Sævarsson kom inn á mínútu síðar og hann átti eftir að setja sitt mark fljótlega á leikinn. Gabríel Aron átti gott langskot á 105. mínútu og boltinn hafnaði í markvinklinum án þess að markvörður Vals kæmi vörnum við. Fleiri urðu mörkin ekki í framlengingu og þurfti því vítakeppni til að knýja fram úrslit.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Gabríel Aron lætur vaða og skömmu síðar lá boltinn í netinu.
Stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenntu á völlinn og sköpuðu frábæra stemmningu á meðan á leik stóð.

Keflavík fór fyrst á vítapunktinn og skoraði, reyndar skoruðu bæði lið úr þremur fyrstu spyrnunum sínum. Markvörður Vals varði hins vegar fjórðu spyrnu Keflvíkinga en Ásgeir Orri gat ekki verið minni maður og varði næstu spyrnu Vals. Bæði lið skoruðu úr fimm af fyrstu sex spyrnunum en í sjöundu skaut heimamaður yfir en Valur skoraði og tryggð sér þar með bikarmeistaratitilinn.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum og fylgdist með bikarleiknum eins og sjá má í myndasafni neðst á síðunni. Þá er símaupptaka af vítakeppninni í spilaranum hér að neðan.

Keflavík - Valur 2:2 (5:6 vítakeppni) | Bikarúrslit 2. flokks karla 2022