Keflavík tapaði á heimavelli
Stjörnumenn fóru með sigur af hólmi þegar þeir sóttu Keflvíkinga heim í gærkvöldi í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Gestirnir voru ávallt skrefinu á undan og höfðu sex stiga forystu í hálffleik, 32-38.
Stjörnumenn héldu 5 – 7 stiga forskoti lengi framan af í fremur daufum leik. Í lok þriðja leikhluta höfðu þeir náð 10 stiga forskoti.
Þegar um 5 mínútur voru til leiksloka náði Hörður Axel að minnka muninn niður í 3 stig og gæfan virtist ætla að brosa við Keflvíkingum í lokin. En Kjartan Atli Kjartansson svaraði með þriggja stiga körfu fyrir Stjörnumenn sem höfðu svör við öllum tilraunum Keflvíkinga til að snúa leiknum sér í hag. Stjarnan uppskar því sigur að lokum, 69-78.
Gunnar Einarsson var stigahæstur í liði Keflvíkinga með 18 stig.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson