Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík stendur í ölduróti
Laugardagur 8. febrúar 2020 kl. 14:38

Keflavík stendur í ölduróti

– stefnan sett upp í efstu deild en einnig skuli hlúð að yngri flokkum

„Keflavík stendur í ölduróti. Verkefnið er skýrt. Keflavík ætlar að koma sínum meistarflokkum aftur í röð hinna bestu um leið og hlúð er að yngri kynslóðinni hvar reynt er að finna jafnvægi á milli afreksíþrótta og félagsstarfs. Þeir sem starfa fyrir íþróttafélögin gera það ekki síst fyrir tilstilli jákvæðrar upplifunar af íþróttastarfi í æsku og því er mikilvægt að hugsa vel um alla iðkendur,“ sagði Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, á aðalfundi deildarinnar í síðustu viku. Sigurður fór yfir skýrslu stjórnar á óhefðbundinn hátt og lýsti vel þeim jákvæðu áhrifum sem íþróttastarf hefur á bæjarfélög og góð lýðheilsuleg áhrif. Hjá Keflavík eru rúmlega 600 iðkendur í knattspyrnu í öllum flokkum sem sýnir samfélagslegt mikilvægi knattspyrnudeildar Keflavíkur. Formaðurinn þakkaði þeim mikla fjölda öflugra sjálfboðaliða sem starfa fyrir félagið, iðkendum, styrktaraðilum og ekki síst stuðningsmönnum sem styðja við bakið á deildinni fyrir sitt framlag í gegnum tíðina.

Á aðalfundinum kom fram að fjárhagurinn er í sæmilegu jafnvægi, félagið skuldar eingöngu aðalstjórn og afkoma félagsins á síðasta ári var neikvæð um rétt rúmar fimm milljónir sem forráðamenn þess töldu viðunandi árangur eftir fall úr efstu deild. Fjárhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir því að reksturinn verði áfram í ágætu jafnvægi. „En betur má ef duga skal og deildin, nú sem endranær, reiðir sig á stuðning sinna bakhjarla, hvort sem er styrktaraðila eða sveitarfélagsins, til þess að hægt sé að halda út þessu öfluga starfi áfram. Til að ná árangri þarf að fjárfesta bæði í nútíð og framtíð og öflugir bakhjarlar geta gert gæfumuninn,“ sagði formaðurinn. Ný stjórn var kjörin á fundinum. Sigurður Garðarsson var endurkjörinn formaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðrir í stjórn og varastjórn eru: Gunnar Oddsson, Þorleifur Björnsson, Karl Finnbogason, Hermann Helgason, Björgvín Ívar Baldursson, Jóhann Snorri Sigurbergsson, Margeir Vilhjálmsson og Ólafur Bjarnason. Auk þeirra voru kjörnir nýir inn í varastjórn þeir Guðlaugur Gunnólfsson og Magnús Þórisson. Stefán Guðjónsson gengur úr stjórn að eigin ósk og eru honum færðar bestu þakkir fyrir sitt starf í gegnum árin.

Sigurður Garðarsson var endurkjörinn formaður.