Keflavík spáð öðru sæti í Inkasso-deildinni
Kvennaliði Keflavíkur í knattspyrnu er spáð öðru sæti í Inkasso-deild kvenna af fótbolti.net. Keflavík endaði í fjórða sæti 1. deildarinnar í fyrra en Gunnar Magnússon þjálfar nú liðið sitt þriðja tímabil. Keflavík vann á dögunum C-deild Lengjubikarsins og fór einnig með sigur af hólmi í fyrsta leik sínum í Inkasso-deildinni með fimm marka sigri á ÍR.
Liðið hefur spila vel í vetur og eru ungu stelpurnar í liðinu orðnar árinu eldri og komnar með reynslu af því að spila, ásamt því að allir erlendu leikmenn liðsins sem léku með liðinu í fyrra halda áfram. Þetta kemur meðal annars fram á fótbolti.net: „Blandan er öflug og með einn besta varnarmann deildarinnar í Natöshu Anasi og mikinn hraða fram á við á Keflavíkurliðið að geta gert harða atlögu að Pepsi-deildar sæti.“
Þegar veikleikar liðsins eru taldir upp þá kemur fram að liðið treysti mikið á erlendu leikmenn sína og því vanti breidd til að styðja við gríðarsterkt byrjunarlið. Því megi lítið vera um meiðsl eða annað slíkt í sumar hjá liðinu.
Lykilmenn liðsins eru sagðar vera Natasha Anasi, Anita Lind Daníelsdóttir og Mairead Clare Fulton. Gunnar Magnús svaraði nokkrum spurningum um fótboltasumarið fyrir Víkurfréttir á dögunum og þar sagði hann meðal annars að liðið ætli sér að vera á toppi Inkasso-deildarinnar í sumar og að liðsheildin sé styrkleiki liðsins, hann segir einnig að liðsheildin sé ein sú besta sem hann hafi kynnst á löngum þjálfaraferli sínum. „Þetta er frábær hópur þar sem allir liðsmenn eru jafn mikilvægir og gegna ákveðnum hlutverkum innan liðsins.“
Komnar:
Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir frá ÍR
Farnar:
Jóney Ósk Sigurjónsdóttir til Völsungs
Margrét Ingþórsdóttir til Fjölnis
Margrét Hulda Þorsteinsdóttir til Grindavíkur