Keflavík spáð falli af Fótbolta.net
Keflvíkingum er spáð 11. sætinu í Pepsi-deild karla sem hefst innan skamms af vefsíðunni Fótbolti.net. Fari svo að sú spá rætist mun liðið falla úr deildinni sem hugnast Keflvíkingum ekkert sérstaklega vel.
Fótbolti.net kunngerði í dag hvaða lið eru í 12. og 11. sæti í spánni og fékk Keflavík þann vafasama heiður að vera spáð niður. Í umsögn um liðið segir Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur, að töluverður óstöðugleiki og agaleysi hafi einkennt leiki liðsins.
„Varnarleikurinn hefur verið óagaður og á köflum slakur og liðið hefur þar af leiðandi fengið á sig alltof mörg mörk. Keflavík þarf að finna leið til að spila sem flesta leiki sem næst meðalgetu. Heimavöllurinn hefur gefið of fá stig undanfarin ár,“ kemur fram í umsögn Kristjáns. Styrkleikar liðsins eru eftirfarandi að mati Kristjáns.
„Sóknarmenn sem geta með einstaklingsframtaki komið sjálfum sér og öðrum í færi og skorað mörk. Miðjumenn sem eru útsjónarsamir og skapa marga möguleika fyrir sóknarmennina. Eru með reynslumikla leikmenn í hópnum sem eiga að geta leyst úr málunum inni á vellinum og geta haft áhrif á sér yngri leikmenn.“
Nú er bara að bíða og sjá hvort að Keflvíkingar afsanni þessa spá. Liðið hefur misst frá sér nokkra sterka leikmenn og þar ber helst að nefna Guðmund Steinarsson sem leikur nú með Njarðvík. Liðið hefur að undanförnu verið að bæta við sig leikmönnum og verður fróðlegt fylgjast með liðinu.