Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Keflavík sópaði Haukum í sumarfrí
    Sandra Lind Þrastardóttir í baráttunni í kvöld - mynd: karfan.is
  • Keflavík sópaði Haukum í sumarfrí
    Njarðvíkurkonur þurfa að bíta í það súra epli að spila í 1. deild á næsta tímabili. - mynd:karfan.is
Þriðjudagur 14. apríl 2015 kl. 21:37

Keflavík sópaði Haukum í sumarfrí

Grindavík lá í Hólminum - Njarðvík missti af sæti í úrvalsdeild

Stóru kvöldi í kvennakörfunni var að ljúka með þremur leikjum þar sem að öll Suðurnesjaliðin voru í sviðsljósinu. Barist var í undanúrslitum í Domino´s deildar kvenna og í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna.

Keflvíkingar gerðu úti um einvígi sitt við Hauka og unnu 9 stiga sigur í TM höllinni, 75-66. Leikurinn var í járnum nær allan leikinn þar sem að liðin skiptust á að leiða allt fram í lok 4. leikhluta en Keflavíkurkonur reyndust sterkari á síðustu mínútum leiksins og sigldu sigrinum í höfn. Keflavíkingar hefndu þar með fyrir karlaliðið, ef svo má að orði komast, og sópuðu út Haukum með því að vinna allar 3 viðureignir liðanna. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Carmen Tyson Thomas var langatkvæðamest Keflavíkurkvenna í kvöld með 29 stig og 12 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 12 stig og þær Sara Rún Hinriksdóttir og Sandra Lind Þrastardóttir gerðu 8 stig hvor.

Hjá Haukum var Lele Hardy í sérflokki og skilaði tröllatvennu, 37 stig og 20 fráköst og Sylvía Rún Hálfdánardóttir gerði 15 stig.

Snæfell bar sigurorð af Grindavík í Stykkishólmi 69-48 þar sem að heimakonur gerðu úti um leikinn með góðum 2. og 3. leikhluta þar sem að Grindvíkingar skoruðu aðeins 19 stig samanlagt gegn 47 stigum Snæfells. Grindvíkingar verða því að sigra næstu 2 leiki liðanna til að komast í lokaúrslitin gegn Keflavík.

Guðlaug Björt Júlíusdóttir skoraði 18 stig fyrir Grindavík og Petrúnella Skúladóttir 14.

Hjá Snæfelli var Denise McCarthy með enn einn stórleikinn og gerði 28 stig og tók 8 fráköst og Hildur Sigurðdóttir skilaði 10 stigum inn um lúguna.

Liðin mætast í fjórða sinn í Röstinni á fimmtudagskvöldið.

Að lokum tóku Njarðvíkurkonur á móti Stjörnunni í Ljónagryfjunni i hreinum úrslitaleik um laust sæti í úrvalsdeildinni. Leikurinn var æsispennandi allan leikinn en þriggja stiga veisla Stjörnukvenna í byrjun 4. leikhluta kom gestunum 11 stigum yfir þegar 6 mínútur voru eftir sem að reyndist Njarðvíkingum erfiður biti að kyngja. Njarðvíkurkonur gerðu þó harða atlögu að Stjörnunni á lokasprettinum og náðu að minnka muninn í 3 stig þegar 18 sekúndur voru eftir. Njarðvíkingar fengu tækifæri til að jafna leikinn þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks en skottilraun Ernu Hákonardóttur geigaði og Stjarnan fagnaði sigri og sæti í deild þeirra bestu að ári. Vissulega mjög svekkjandi fyrir Njarðvíkinga sem höfðu aðeins tapað einum leik allt Íslandsmótið fyrir einvígi sitt við Stjörnuna en ósigrar í síðustu 2 leikjum þýðir að liðið situr eftir með sárt ennið og mun því leika í 1. deild næsta tímabil.

Atkvæðamest hjá Njarðvíkingum var Karen Dögg Vilhjálmsdóttir með 12 stig og þær Guðbjörg Ósk Einarsdóttir og Erna Hákonardóttir gerðu 9 stig hvor.

Hjá Stjörnunni voru Bryndís Hanna Hreinsdóttir og Bára Fanney Hálfdánardóttir báðar með 12 stig.