Keflavík sló Njarðvík út úr Maltbikarnum
Nágrannaslagur af bestu gerð fór fram í TM höllinni í Maltbikarnum í kvöld. Erkifjendurnir úr Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík tókust á í 32 liða úrslitum og fóru heimamenn úr Keflavík með sigur af hólmi, 97-91, eftir æsispennandi leik. Víkurfréttir sýndu frá leiknum í beinni útsendingu á sjónvarpsvefsíðu Víkurfrétta, beint.vf.is, en það var frumraun okkar í slíkri körfuboltaútsendingu. Keflvíkingurinn og kempan Falur Harðarson og Njarðvíkingurinn Eyþór Sæmundsson sáu um að lýsa leiknum. Hér að neðan má sjá myndir úr leiknum.
Leikurinn byrjaði jafnt og var staðan eftir fyrsta fjórðung 20-22. Amin Stevens lenti í villuvandræðum strax á fjórðu mínútu leiksins og var hvíldur þar til í seinni hálfleik. Njarðvíkingar nýttu sér það og tóku flotta rispu síðustu mínútur fyrri hálfleiks sem skilaði þeim 13 stiga forskoti inn í hálfleikinn, 44-57.
Í þriðja leikhluta náðu Keflvíkingar að saxa á forskot Njarðvíkinga með Stevens aftur kominn inn í leikinn og Dupree að spila fantavel, bæði varnar- og sóknarlega. Skyttur Njarðvíkur höfðu kólnað og voru ekki að setja skotin eins vel og í öðrum leikhluta. Keflvíkingar náðu að komast yfir og í lok þriðja fjórðungs var staðan 73-69.
Keflavík var sterkara í fjórða leikhluta en Njarðvík gerðu sig líklega til að koma til baka og náðu muninum niður í tvö stig, 85-83, með um tvær of hálfa mínútu eftir af leiknum. Amin Stevens hafði fengið tæknivillu og Bonneau setti niður þrjú víti. Jóhann Árni fór svo á línuna eftir að Stevens hafði fengið sína fimmtu villu og hafði tækifæri til að jafna leikinn en brenndi af báðum og nær komust Njarðvíkingar ekki. Lokatölur leiksins voru 97-91.
Stigahæstur Keflvíkinga var Reggie Dupree með 28 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar en Amin Stevens var með 19 stig og 8 fráköst. Hjá Njarðvík var Stefan Bonneau með 27 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar og Logi Gunnarsson skoraði 20 stig og tók 6 fráköst.
Logi Gunnarsson hafði þetta að segja aðspurður að því hvað það var sem gekk ekki upp sem Njarðvíkingar hefðu lagt upp með fyrir leik. „Það var að halda haus þegar þeir komu með þeirra áhlaup. Við vissum að þeir myndu koma með gott áhlaup í seinni hálfleik og við vorum tilbúnir í það en þegar það kom þá brugðumst við ekki nógu vel við.“
Guðmundur Jónsson var ánægður með sigurinn í kvöld en sagði 57 stig andstæðingsins í fyrri hálfleik allt of mikið þegar hann var spurður hvort hann væri sáttur með varnarleik síns liðs. „Í seinni hálfleik já, en 57 stig í fyrri hálfleik er allt of mikið. Við vorum allt of ragir við þá, gáfum þeim frí skot, en um leið og við fórum í andlitið á þeim og létum þá hafa fyrir hlutunum þá urðu þeir þreyttir og þannig tókum við seinni hálfleikinn,“ sagði Guðmundur Jónsson í viðtali við Víkurfréttir eftir leikinn.