Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík sló Blika úr bikarnum
Davíð Snær gulltryggði sigur á Breiðablik með gullfallegu marki. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 24. júní 2021 kl. 00:10

Keflavík sló Blika úr bikarnum

Baráttusigur í framlengingu

Keflavík tók á móti Breiðabliki í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu á HS orkuvellinum í kvöld. Þetta var hörkuleikur og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit. Það voru Keflvíkingar sem reyndust sterkari á endanum og tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum með 2:0 sigri.

Það var ekkert gefið eftir í bikarleik Keflavíkur og Blika og baráttan í fyrirrúmi. Gestirnir voru meira með boltann en Keflavík átti hættulegar sóknir og sköpuðu sér góð færi.

Besta færið í fyrri hálfleik fengu Blikar, „þrefalt“ dauðafæri þar sem Sindri Kristinn varði fyrst glæsilega skot sóknarmanns, þá var skallað í stöng og loks bjargaði Ástbjörn á línu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Blikar nærri því að skora en Ástbjörn bjargar á línu.

Sama baráttan var uppi á teningnum í seinni hálfleik en hvorugu liði tókst að skora, Keflvíkingar voru þó nærri því nokkrum sinnum en inn vildi boltinn ekki.

Fyrri hluti framlengingarinnar var heldur daufur, áfram hélt Breiðablik að vera meira með boltann en varnarleikur heimamanna og baráttan í liðinu var til fyrirmyndar.

Þegar komið var fram í síðari hluta framlengingarinnar brustu varnir gestanna þegar Kian Williams átti góðan sprett inn í teiginn og sendi á Helga Þór Jónsson sem afgreiddi boltann af stuttu færi í mark Blika (114'). 1:0 fyrir Keflavík og vel fagnað á vellinum.

Heimamenn fögnuðu marki Helga Þórs vel og innilega.

Nokkrum mínútum síðar gerði Davíð Snær Jóhannsson einstaklega vel þegar hann fékk boltann inn í teig Blika, umkringdur mótherjum náði hann valdi á boltanum og setti gott skot upp í vinkilinn fjær, óverjandi fyrir markvörð Blika (120'+1). Sigurinn gulltryggður og Keflavík komið áfram í næstu umferð.

Davíð Snær gerði út um leikinn með gullfallegu marki.

Krafturinn í heimamönnum var mikill í kvöld og þeir uppskáru sigur með baráttunnni sem þeir lögðu í leikinn. Þótt Breiðablik hafi verið meira með boltann voru það heimamenn sem sköpuðu sér talsvert fleiri og hættulegri færi. Blikar fengu að vísu yfir tuttugu hornspyrnur en Sindri Kristinn Ólafsson var öryggið uppmálað í marki Keflvíkinga og átti teiginn algerlega. Þá stjórnaði miðvarðaparið Magnús og Frans vörninni vel sem gaf Blikum engin grið og enn færri marktækifæri.

Þetta var sigur liðsheildarinnar en vinnusemi Keflvíkinga var frábær í kvöld og leikmenn gáfu sig alla í leikinn.

Ljósmyndarar Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson og Jóhann Páll Kristbjörnsson, voru á leiknum eins og sjá má í myndasafni neðst í fréttinni.

Keflavík - Breiðablik (2:0) | Mjókurbikar karla 23. júní 2021