Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík sigrar í Sláturhúsinu. Komnar í úrslit!
Föstudagur 19. mars 2004 kl. 19:47

Keflavík sigrar í Sláturhúsinu. Komnar í úrslit!

Keflavík tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik með sigri á Grindavík, 66-62, í miklum baráttuleik. Sigurður Ingimundarson stýrði liði Keflavíkur í kvöld í fyrsta leik liðsins síðan Hjörtur Harðarson lét af störfum í gær.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og leiddu, 23-20, eftir fyrsta leikhluta. Keflvíkingar svöruðu að bragði í þeim næsta, en misstu gestina aftur fram úr sér og leiddu þær því með 34 stigum gegn 39 í hálfleik.
Í seinni hálfleik var sem allur botn dytti úr sóknarleik Grindvíkinga þar sem þeim gekk bölvanlega að skora og vörn Keflavíkur var þétt. Þær skoruðu einungis 7 stig gegn 18 stigum heimastúlkna og var munurinn því orðinn 6 stig, Keflavík í hag, 52-46 fyrir lokafjórðunginn.
Þar jafnaðist leikurinn að nýju, en Grindvíkingar náðu ekki upp taktinum í sókninni og þurftu því að játa sig sigraðar að lokum. Upprisa stúlknanna eftir áramót var með ólíkindum og má með sanni segja að þær hafi veitt Keflvíkingum hörðustu mótspyrnu en þær hafi fengið í allan vetur.

Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, sagði úrslitin að sjálfsögðu vonbrigði fyrir stúlkurnar, en stelpurnar væru nú reynslunni ríkari. „Þegar ógnin fór úr sókninni hjá okkur í þriðja leikhluta misstum við þær fram úr okkur. Vörnin og baráttan voru í góðu lagi hjá okkur, en við vorum kannski svolítið óheppnar í skotum á lokakaflanum. Svona er nú bara körfuboltinn!.“

Erla Þorsteinsdóttir, fyrirliði Keflvíkinga átti góðan leik í kvöld og var ánægð í leikslok. „Við vorum að ströggla í sókninni framan af, en vörnin var góð hjá okkur. Við komumst svo aftur yfir í seinni hálfleik og héldum þessu svo til enda. Við erum bara jákvæðar fyrir framhaldið og stemmningin er mjög góð í hópnum fyrir úrslitaleikina við ÍS.“

Fyrsti leikurinn í úrslitarimmunni fer fram á miðvikudaginn.

 

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024