Keflavík sigrar í Ljónagryfjunni
Keflavík settist í annað sæti Intersport-deildarinnar með sigri á erkifjendunum í Njarðvík í sjálfri Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur voru 73-78 eftir mikla baráttu og háspennu á lokasprettinum.
Eftirvæntingin fyrir leikinn var mikil og var húsfyllir eins og á að vera. Eitthvað voru Njarðvíkingar þó lengi í gang því sóknirnar þeirra fóru í súginn hver af annarri. Skotin vildu ekki ofan í og óvandaðar sendingar höfnuðu hver af annarri í höndum varnarmanna Keflavíkur.
Keflvíkingar voru einráðir á vellinum og skoruðu 11 fyrstu stigin þar til Anthony Lackey hitti loks úr 3ja stiga skoti þegar 6 mínútur voru liðnar af leiknum. Brenton Birmingham bætti 5 stigum við eftir það og minnkaði muninn í 8-11, en Keflvíkingar sigu aftur framúr og leiddu 11-19 í lok fyrsta leikhluta.
Elentínus Margeirsson, sem átti frábæra innkomu af bekknum, jók muninn með 3ja stiga körfu í upphafi annars fjórðungs. Keflvíkingar bættu í og náðu upp 13 stiga forskoti, 17-30, en eftir það hrukku heimamenn loks almennilega í gang. Smátt og smátt saxaðist á forskotið og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn 6 stig, 34-40.
Fyrri hálfleikurinn var skemmtilegur áhorfs þar sem liðin spiluðu aggressíva maður á mann vörn og baráttan var í algleymi. Áhorfendur létu heyra vel í sér í stúkunni svo að húsið lék á reiðiskjálfi þegar verst lét.
Í upphafi seinni hálfleiks lét Matt Sayman finna fyrir sér, en hann lék sárþjáður vegna meiðsla og gat því ekki beitt sér að fullu. Hann setti 7 stig á skömmum tíma og kom sínum mönnum yfir, 44-43. Það sem eftir lifði af fjórðungnum skiptust liðin á að leiða en Elentínus, Anthony Glover og Nick Bradford voru drjúgir á lokasprettinum og tryggðu Keflvíkingum 6 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn.
Eftir brösuga byrjun náðu Njarðvíkingar góðum kafla þar sem þeir skoruðu 12 stig í röð og virtust ætla að taka stjórnina í leiknum. Þegar um 5 mínútur voru til leiksloka var staðan 68-67 fyrir Njarðvík en þá misstu þeir Pál Kristinsson útaf með 5 villur.
Spennan magnaðist og liðin voru hnífjöfn að stigum, 73-73, eftir körfu frá Glover þegar um 2 mín vou eftir. Bradford bætti tveimur stigum við þegar hálf mínúta var eftir en þá var sem allur vindur væri úr heimamönnum. Sóknir þeirra runnu út í sandinn og Gunnar Einarsson tryggði sigurinn fyrir sína menn með því að skora síðustu þrjú stigin í leiknum úr vítum.
Njarðvíkingar eru enn efstir í deildinni með 16 stig eftir tapið, en Keflvíkingar fylgja þeim líkt og skugginn í öðru sætinu.
VF-myndir/Hilmar Bragi