Keflavík sigraði KR
Í gærvöldi tók Keflavík á móti KR í Lengjubikar kvenna og fór Keflavík með sigur af hólmi 63-50 þar sem Jaleesa Butlar fór á kostum með 17 stig, 16 fráköst , 6 stoðsendingar, 5 varin skot og fjöldan allan af vörðum skotum. Keflavík spilaði án Marínar Rósar Karlsdóttur og Ingibjargar Jakobsdóttur þar sem báðar eru að glíma við meiðsli.
Það tók bæði lið frekar langan tíma að koma sér af stað og eftir 5 mínútna leik var staðan aðeins 3-3. En eftir það fóru liðin að sækja aðeins meira og endaði fyrsti leikhlutinn 15-13 fyrir Keflavík, þar sem Butler skoraði flautukörfu langt fyrir utan þriggja stiga línuna. Greinilegt var að haustið situr svolítið í báðum liðunum þar sem fyrri hálfleikurinn einkenndist frekar mikið af töpuðum boltum og slæmri skotnýtingu. Í hálfleik var staðan 28-30 fyrir KR. Hjá Keflavík var Butler komin með 8 stig og Birna Valgarðsdóttir 7, en hjá KR var Helga Einarsdóttir með 8 stig.
Eins og áður þá byrjaði þriðji leikhlutinn frekar hægt. Butler átti eftir að kveikja aðeins í Keflvíkingunum því fljótlega inn í leikhlutann átti Butler „play“ dagsins þegar hún blokkaði þriggja stiga skot hjá Bryndísi Guðmundsdóttur, náði sjálf frákastinu og brunaði yfir þar sem hún lagði boltann ofan í körfuna. Ekki oft sem maður sér svona tilþrif í kvennaboltanum. En Butler fór á kostum í þessum leikhluta sem endaði 44-38 fyrir Kefvíkinga og var hún komin með 17 stig. Það er þó ljóst að dómararnir ætla sér ekki að hlusta á mikið röfl í vetur þar sem Hrafn, þjálfari KR, fékk tæknivíti fyrir eitt slíkt í leikhlutanum. Leikurinn endaði svo 63-50 fyrir Keflavík.
Í liði Keflvíkinga fór eins og áður segir Jaleesa Butler á kostum með 17 stig, 16 fráköst og fjöldan allan af blokkuðum skotum, þó svo að það hafi verið bara skráð á hana 4 slík í tölfræðinni þá tóku allir eftir að þau voru mun fleiri. Þá átti Hrund Jóhannsdóttir frábæran leik í kvöld með 15 stig og 8 fráköst.
Umfjöllun karfan.is
VF-Mynd: Bryndís Guðmundsdóttir mætti gamla heimavöllinn og tapaði í gær.