Keflavík sigraði Hamar eftir að hafa spilað vel fyrstu þrjá leikhlutana
Keflavík fór með sigur af hólmi þegar þær tóku á móti Hamar í gækvöldi í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta, 73-61. Leikurinn var hin ágætasta skemmtun framan af og var mikil barátta hjá báðum liðunum. Keflavík var þó í bílstjórasætinu fyrstu þrjá leikhlutana en Hamar, sem reyndi að klóra í bakkann, átti þann fjórða. Pálína Gunnlaugsdóttir var stigahæst Keflavíkur með 20 stig en hjá Hamri var Katherine Graham með 15 stig. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og eftir um fimm mínútna leik var staðan 8-6 fyrir Keflavík og Birna Valgarðsdóttir sú eina sem komin var á blað hjá Keflavík. Hamar kemst svo yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum 9-10 tveimur mínútum síðar. Þá setti Keflavík allt í lás og komst á 8-0 „run“. Fyrsti leikhlutinn endaði síðan 23-17 og var Pálína og Birna að spila vel fyrir Keflavík á fyrstu 10 mínútunum. Birna með 8 stig og Pálína 7 stig. Hjá Hamri var Graham, 6 stig, og Samantha Murphy, 5 stig, að spila ágætlega.
Keflavík byrja annan leikhlutann með látum og komast á 6-0 „run“ á aðeins mínútu og staðan því 29-17. Þegar rúm mínúta var búin af leiknum fær Hrund Jóhannsdóttir sína þriðju villu en hún kom mjög sterk af bekknum. Mikil barátta einkenndi leikhlutann en Keflavík var með yfirhöndina framan af og voru að spila frábæra vörn. Fyrsta karfa Hamars utan af velli kom ekki fyrr en þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. En þær voru ekki með góða nýtingu í leikhlutanum og voru að missa mikið af opnum skotum. En við þessa körfu small allt hjá Hamri og þær komust á 0-8 „run“ og náðu að minnka muninn í níu stig, 38-29. Keflavík skoruðu síðustu fimm stig leikhlutans sem endaði 43-29 þegar flautað var til leikhlés. Stigaskorin voru að dreifast nokkuð vel í fyrsta leikhluta beggja liða. Hjá Keflavík var Pálína komin með 11 stig og Birna 8 stig, en hjá Hamri var Murphy komin með 8 stig og Graham með 7 stig.
Í þriðja leikhluta byrja Hamar betur og allt „momentið“ hjá þeim. Leikur Keflavíkur einkenndist af mistökum fyrstu mínúturnar á meðan Hamar barðist fyrir öllu. Um miðjan leikhlutann er staðan 49-35 fyrir Keflavík og ekkert að gerast hjá hvorugu liðinu. En þá kviknar á Keflavík sem komast á 11-0 „run“ og voru komnar á þvílíkt skrið. En þá setja Fanney Lind Guðmundsdóttir og Íris Ásgeirsdóttir sitthvorn þristinn niður fyrir Hamar og stoppa þar með áhlaupið hjá Keflvíkingum. Staðan fyrir síðasta leikhltann er 62-41 og virtist allt benda á öruggan sigur Keflavíkur. Jaleesa Butler vaknaði til lífsins í leikhlutanum og var komin með 14 stig ásamt Pálínu. Hjá Hamri var Murphy komin með 10 stig og Marín Laufey Davíðsdóttir með 8 stig.
Snemma í fjórða leikhluta smellir Hamar tveimur þristum í röð og ætluðu greinilega að fara að berjast fyrir sínu. Um miðjan leikhlutann skellir Hamar í annan þrist og staðan orðin 66-53 og þær að spila mjög vel. Á þessum tíma var gjörsamlega ekkert að gerast hjá Keflavík sem gerðu í því að henda boltanum frá sér, annað hvort út af eða í fangið á Hamri. Þegar rúm mínúta er eftir af leiknum er staðan orðin 69-60 og Hamar á þvílíkri siglingu. En Keflavík nær að klára leikinn og endar eins og áður segir 73 -61.
Leikhluturinn var í eigu Hamars sem greinilega ætlaði ekki að gefast upp og gerðu allt sitt til að reyna að ná þessum tveimur stigum sem í boði voru. En þær byrjuðu bara allt of seint að berjast fyrir því og Keflavík fór með sigur af hólmi, 73-61.
Pálína Gunnlaugsdóttir var stigahæst Keflavíkur með 20 stig. Næstar henni voru Jaleesa Butler með 14 stig og Birna Valgarðsdóttir með 10 stig.
Hjá Hamri var Katherine Graham stigahæst með 15 stig, Samantha Murphy var síðan með 13 stig og þær Íris Ásgeirsdóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir voru báðar með 11 stig.
Umfjöllun/ [email protected]