Keflavík sendi Hauka í sumarfrí
Íslandsmeisturum Hauka var sópað inn í sumarið 3-0 af Keflvíkingum í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik. Liðin mættust í kvöld í sínum þriðja leik í Toyotahöllinni í Keflavík þar sem Haukar máttu sætta sig við 82-67 ósigur. Pálína Gunnlaugsdóttir gerði sínu gamla félagi úr Hafnarfirði skráveifu er hún setti 22 stig yfir Hauka en Victoria Crawford gerði 25 stig fyrir gestina.
Margrét Kara Sturludóttir leikmaður Keflavíkur var sátt í leikslok en hún gerði 6 stig í kvöld og tók 11 fráköst. Hún vill fá KR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
„Ég er mjög ánægð með sigurinn og það var vörninn sem var grunnurinn að þessu. Fyrsti leikurinn í seríunni var svolítið slakur hjá okkur en þetta tókst að lokum. Það sem gerði útslagið er að breiddin hjá okkur, við höfðum meiri breidd en Haukar,“ sagði Kara sem býst við því að mæta KR og vill það endilega. „Ég held að við mætum KR þó Grindavík hafi unnið í kvöld. Ég er ekki viss hvort liðið henti okkur betur en bæði lið hafa stóra erlenda leikmenn. Annars vil ég mæta KR,“ sagði Kara hvergi bangin.
Haukar voru líflegri í upphafi leiks en eins og hefur viljað bregða við í leikjum liðanna gjörbreyttist Keflavíkurliðið þegar fyrirliðinn Ingibjörg Elva kom inn á völlinn. Með Ingibjörgu á vellinum tókst Keflavík að jafna metin í 15-15 og leiddu svo 24-19 eftir fyrsta leikhluta.
Gestirnir beittu svæðisvörn í öðrum leikhluta sem gekk þokkalega. Ragna Margrét Brynjarsdóttir fékk sína þriðju villu í liði Hauka og varð að passa sig. Keflvíkingar náðu frumkvæðinu og eins og í fyrri leikjum liðanna í úrslitakeppninni voru Keflvíkingar að hitta vel við þriggja stiga línuna. Undir lok leikhlutans gerðu Keflvíkingar tvær þriggja stiga körfur í röð og var staðan 42-36 fyrir Keflavík í hálfleik. Reyndar gerðu Keflvíkingar alls 10 þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik í kvöld.
TaKesha Watson var með 12 stig fyrir Keflavík í hálfleik og Ingibjörg Elva með 11 stig en hún lék frábærlega í fyrri hálfleik. Hjá Haukum var Crawford með 15 stig í leikhléi.
Keflavík gerði svo út um leikinn og seríuna í þriðja leikhluta með góðri vörn. Haukar náðu aðeins að skora sex stig á Keflavík í leikhlutanum og fyrir fjórða og síðasta leikhluta var staðan 61-42 Keflavík í vil.
Rannveig Kristín Randversdóttir lék með Keflavík að nýju en hún missti af leik liðanna að Ásvöllum sökum tognunar sem hún hlaut í fyrsta leik liðanna. Rannveig gerði 2 stig í kvöld og tók 5 fráköst á rúmum 11 mínútum en hún hefur verið að skila mikilvægu starfi fyrir Keflavík í teignum í vetur.
Haukar áttu fínar rispur í fjórða leikhluta en Keflavík hélt gestunum fjarri og fóru að lokum með 82-67 sigur eins og fyrr greinir. Það verða því nýjir Íslandsmeistarar krýndir í ár en Haukar eru Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára.
VF-Mynd/ [email protected] – Margrét Kara frákastaði vel í kvöld.