Keflavík semur við tvo erlenda leikmenn fyrir veturinn
Keflavík hefur samið við tvo erlenda leikmenn sem munu koma til með að spila með karla- og kvennaliði Keflavíkur í vetur.
Rahshon Clark mun leika með karlaliði Keflavíkur í vetur og kemur hann frá Iowa State. Hann er 198 sm á hæð, 95 kg og spilar sem framherji/skotbakvörður. Rahshon er einn af fjölhæfari leikmönnum í sögu Iowa State og eini leikmaðurinn í sögu Big 12 deildarinnar til að skora meira en 1.000 stig, skora yfir 100 þriggja stiga körfur og blokka yfir 100 skot þau fjögur ár sem hann spilaði fyrir skólann. Hann var í byrjunarliði liðsins í 108 leikjum af 123.
Hjá stelpunum mun Viola Beybeyah koma til með að styrkja liðið í vetur. Hún kemur úr Oklahoma City skólanum, er 180 sm á hæð og spilar sem framherji. Ásamt því að vera valin besti leikmaður NAIA-deildarinnar árið 2008, skoraði hún 12,2 stig og tók 6,8 fráköst á sínu lokaári hjá Oklahoma City. Hún afrekaði það einnig að vera stigahæsti leikmaður Oklahoma City, en liðið sýndi góðan árangur með 28 sigrum af 33 leikjum á tímabilinu.