Keflavík samdi við hollenska markvörðinn Richard Arends
- ekki útilokað að fleiri leikmenn komi til liðsins fyrir tímabilið í Pepsideildinni
Hollenski markvörðurinn Richard Arends sýndi það góða takta á æfingum hjá karlaliði Keflavíkur á dögunum að félagið hefur ákveðið að semja við Arends. Hann mun því verja mark liðsins í Pepsi-deidinni á næsta sumri.
Fotbolti.net greinir frá. Jonas Sandqvist frá Svíþjóð sem var í markinu á síðustu leiktíð verður ekki áfram en Sindri Kristinn Ólafsson, sem er ungur og efnilegur leikmaður, hefur varið mark Keflvíkinga í vetrarleikjunum. Hinn 24 ára gamli Arends er kominn til landsins og segir Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga að markvörðurinn passi vel í samsetninguna á vörninni sem sett hefur verið saman.
Arends, sem er rétt um 1,90 m. á hæð, lék 72 leiki með FC Oss í næst efstu deild í heimalandinu. ,,Þetta er góður markvörður til að vera með Sindra sem er að taka góð skref og verður vonandi framtíðarmarkvörður hjá okkur,“ segir Kristján við fotbolti.net en leikmannaleit Keflvíkinga er ekki lokið og má búast við að liðið styrki sig enn frekar ef réttu leikmennirnir finnast.