Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík og Njarðvík sigruðu í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna
Anna Ingunn Svansdóttir setti niður 21 stig, var með sex stoðsendingar og sex fráköst. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 6. október 2021 kl. 23:32

Keflavík og Njarðvík sigruðu í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna

Fyrsta umferð í Subway-deild kvenna í körfuknattleik var leikin í kvöld. Njarðvíkinngar sóttu Hauka heim á Ásvelli og höfðu betur (58;:66) en Haukum hefur verið spáð Íslandsmeistaratitlinum í ár. Í Blue-höllinni tóku Keflvíkingar á móti Skallagrími og unnu frekar auðveldan sigur á Borgnesingum (80:66) á meðan Grindavík tapaði heima fyrir Val (69:94). 

Keflavík - Skallagrímur 80:66

(18:16 | 24:19 | 17:7 | 21:24)

Keflvíkingar tóku forystuna með þriggja stiga körfu Önnu Ingunnar Svansndóttur í byrjun leiks og leiddu nánast allan leikinn. Eftir fyrsta leikhluta munaði einungis tveimur stigum á liðunum en Skallagrímur jafnaði og komst í 28:20. Þá tók Keflavík öll völd og jók munin í öðrum og þriðja leikhluta í sautján stig.

Í fjórða og síðasta leikhluta leyfðu þær keflvísku sér að gefa örlítið eftir en úrslitin voru þegar ráðin, fjórtán stiga sigur, 80:66.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Anna Ingunn Svansdóttir var atkvæðamikil hjá Keflavík og setti niður 21 stig, var með sex stoðsendingar og sex fráköst. Þá skoraði Eygló Kristín Óskarsdóttir sextán stig, tók sjö fráköst og átti eina stoðsendingu og Tunde Kilin var með fjórtán stig, þrjú fráköst og fjórar stoðsendingar.

Tölfræði leiks.

Eygló Kristín Óskarsdóttir átti góðan leik með Keflavík, setti niður sextán stig, tók sjö fráköst og átti eina stoðsendingu.


Grindavík - Valur 69:94

(15:22 | 20:23 | 13:26 | 21:23)

Grindvíkingum gekk illa að ráða við sóknarleik Valskvenna sem unnu sannfærandi sigur í HS Orku-höllinni í kvöld. Valur náði tíu stiga forskoti snemma í leiknum og héldu Grindvíkingum frá sér það sem eftir lifði leiks.

Robbi Ryan gerði 24 stig fyrir Grindavík í kvöld, tók sjö fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Edyta Ewa Falenzcyk gerði tíu stig, var með fjögur fráköst og eina stoðsendingu.Hulda Björk Ólafsdóttir átta stig, eitt frákast og tvær stoðsendingar. Arna Sif Elíasdóttir, Hekla Eik Nökkvadóttir, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir og Jenný Geirdal Kjartansdóttir voru með sex stig hver.

Tölfræði leiks.


Haukar - Njarðvík 58:66

(12:18 | 9:11 | 21:14 | 16:23)

Njarðvík hóf leikinn gegn því liði sem flestir spá Íslandsmeistaratitilinum, Haukum. Njarðvíkingar komu vel undirbúnar til leiks og héldu sókn Hafnfirðinga í skefjum.

Njarðvík hafði betur í tveimur fyrstu leikhlutunum og var með átta stiga forystu í hálfleik (29:21) en í þriðja leikhluta bitu Haukar frá sér og minnkuðu muninn í eitt stig fyrir síðasta leikhluta. Heimakonur komust yfir í upphafi fjórða leikhluta, náðu þriggja stiga forystu (46:43) en þá sögðu Njarðvíkingar: „Hingað og ekki lengra!“ Njarðvík náði aftur forystunni og hafði að lokum nokkuð sannfærandi átta stiga sigur, 58:66.

Tölfræði leiks.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leik Keflavíkur og Skallagríms og má sjá myndasafn frá leiknum hér að neðan.

Keflavík - Skallagrímur (80:66) | Subway-deild kvenna 6. október 2021