Keflavík og Njarðvík á góðri siglingu í Subway-deild kvenna
Grindavík tapaði fyrir Haukum
Suðurnesjaliðin þrjú léku öll í kvöld í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Keflavík vann Val og Njarðvík hafði betur gegn Breiðabliki, Grindavík þurfti hins vegar að láta í minni pokann gegn Haukum eftir kraftmikla byrjun.
Valur - Keflavík 64:84
(11:25, 23:21, 13:13, 17:25)
Keflvíkingar mættu ákveðnar til leiks á Hlíðarenda og tóku völdin strax í byrjun. Keflavík leiddi með fjórtán stigum eftir fyrsta leikhluta, næstu tveir voru mjög jafnir en Keflvíkingar gerðu út um leikinn í lokaleikhlutanum þar sem þær juku forskotið um átta stig. Tuttugu stiga sigur á Val sem höfðu unnið alla sína leiki.
Daniela Morillo var söm við sig og hæst í stigasöfnun Keflavíkur með 23 stig og ellefu fráköst. Annars lá mesti munurinn í frammistöðu af bekknum en Valur var með ellefu stig af bekknum á móti 26 stigum Keflavíkur, Agnes María Svansdóttir setti niður fimmtán stig og tók fjögur fráköst.
Frammistaða Keflvíkinga: Daniela Wallen Morillo 23/11 fráköst, Tunde Kilin 15, Agnes María Svansdóttir 15/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 12, Eygló Kristín Óskarsdóttir 6/8 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 5, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 2/4 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 2/4 fráköst, Anna Lára Vignisdóttir 2, Hjördís Lilja Traustadóttir 2, Gígja Guðjónsdóttir 0, Eva María Davíðsdóttir 0.
Breiðablik - Njarðvík 62:74
(23:21, 9:8, 12:22, 18:23)
Njarðvíkingar voru fljótar að jafna sig eftir tap gegn Val í síðustu umferð. Eftir jafnan fyrri hálfleik, þar sem Blikar náðu þriggja stiga forystu, gáfu þær grænklæddu í eftir hálfleiksræðuna og sigldu öruggum tólf stiga sigri í höfn.
Aliyah Collier var mögnuð með 22 stig, 27 fráköst og sex stoðsendingar. Diane Diéné kom næst með tólf stig og átta fráköst.
Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 22/27 fráköst/6 stoðsendingar, Diane Diéné Oumou 12/8 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 12/9 fráköst, Vilborg Jonsdottir 9/5 stoðsendingar, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Eva María Lúðvíksdóttir 7, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Júlía Rún Árnadóttir 0, Helena Rafnsdóttir 0/4 fráköst, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Grindavík - Haukar 50:84
(16:10, 6:26, 15:30, 13:18)
Grindvíkingar hófu leikinn gegn Haukum með miklu offorsi og höfðu sex stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta. Haukar tóku hins vegar öll völd á vellinum eftir það og Grindvíkingar náðu ekki að setja niður nema sex stig í öðrum leikhluta gegn 26 stigum gestanna sem kláruðu leikinn án teljandi vandræða.
Breidd Haukaliðsins hafði gríðarlega mikið að segja í leiknum en bekkurinn hjá þeim var með sjötíu stig á meðan byrjunarlið Grindvíkinga gerði 41 af 50 stigum liðsins.
Robbi Ryan og Edyta Fanzcyk gerðu sitt í leiknum, samtals 31 stig, en það vantaði að fleiri myndu stíga upp hjá Grindvíkingum.
Frammistaða Grindvíkinga: Robbi Ryan 16/10 fráköst, Edyta Ewa Falenzcyk 15/9 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 7, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 6/4 fráköst, Hekla Eik Nökkvadóttir 3/4 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 2, Hulda Björk Ólafsdóttir 1, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 0, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 0.