Keflavík og KR geta komist áfram í kvöld
Tveir stórleikir verða í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar Keflavík tekur á móti Haukum í Toyotahöllinni og KR fær Grindavík í heimsókn í DHL-Höllina. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15. Takist Keflavík og KR að hafa sigra í kvöld eru liðin komin í úrslit og mætast þá í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Ef KR vinnur Grindavík í kvöld verða Vesturbæingar fyrstu nýliðarnir í 13 ár til að leika um Íslandsmeistaratitilinn. Það gerðu Blikar síðast árið 1995.
Rannveig Kristín Randversdóttir leikmaður Keflavíkur meiddist á ökkla í fyrsta leik Keflavíkur og Hauka og lék ekkert með í öðrum leiknum að Ásvöllum. Búist er við því að hún reyni að hlaupa með Keflavík í kvöld en liðið hefur mátt sætta sig við töluverð áföll þennan veturinn og voru fyrir á meiðslalista þær Bryndís Guðmundsdóttir og Marín Rós Karlsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir hefur ekkert leikið með þar sem hún er með barni.
Grindvíkingar hafa átt fá svör við grimmum varnarleik KR að undanförnu og hefur Hildur Sigurðardóttir, fyrrum leikmaður Grindavíkur, farið á kostum í báðum leikjunum gegn Grindavík í úrslitakeppninni.
VF-Mynd/ [email protected]– Birna Valgarðsdóttir hefur leikið gríðarvel fyrir Keflavík gegn Haukum í síðustu tveimur leikjum.