Keflavík og Grindavík efst í Deildarbikarnum
Langt er nú liðið á riðlakeppnina í deildarbikar karla, en flest liðanna eiga einn leik eftir. Gengi Suðurnesjaliðanna hefur verið misjafnt í keppninni, Keflvíkingar eru efstir í F-riðli og Grindvíkingar efstir í B-riðli og eru bæði lið því örugg inn í úrslitakeppnina. Njarðvíkingum hefur hins vegar ekki gengið eins vel og nágrönnum sínum, en þeir verma nú fimmta sæti C-riðlils. Öll eiga Suðurnesjaliðin einn leik eftir í riðlakeppninni; Njarðvík leikur gegn Fram í kvöld klukkan 19:00 í Reykjaneshöllinni og Grindavík mætir Þrótti nk. laugardag, einnig í Reykjaneshöll, kl 12:00. Keflavík átti að leika gegn Bruna í gær, en þeim leik var frestað og fer hann fram á malarvelli Keflvíkinga í dag kl 18:30. Deildarbikar kvenna er nýhafinn og hafa Suðurnesjaliðin þar, Grindavík og RKV leikið tvo leiki hvort og tapað báðum. Þau verma nú botnsætin í A- og B-riðli. Næsti leikur RKV í mótinu verður gegn FH nk. laugardag. Leikið verður á Ásvöllum kl 14:00. Grindavík mætir Stjörnunni í Reykjaneshöll nk. þriðjudag og hefst leikurinn kl 21:00.