Keflavík nálgast ÍA á ný
Keflvíkingar söxuðu á forskot Skagamanna í 3. sæti Landsbankadeildarinnar í gærkvöldi með 0-1 útisigri gegn Fylki í Árbænum. Hólmar Örn Rúnarsson gerði mark Keflavíkur á 76. mínútu leiksins með skoti af stuttu færi úr teignum eftir fyrirgjöf.
Haukur Ingi Guðnason var í byrjunarliði Fylkis í gær í fyrsta skiptið í 2 ár en hann hefur átt við langvinn meiðsli að stríða.
Gestirnir hófu leikinn af krafti og áttu t.d. 3 hornspyrnur snemma í leiknum en ekkert kom út úr þeim.
Á 20. mínútu áttu Fylkismenn skot í slá og náðu eftir það góðum tökum á leiknum. Það sem eftir lifði af fyrri hálfleik voru Fylkismenn sterkari en vörn Keflavíkur stóðst áhlaupið og máttu Keflvíkingar teljast heppnir að halda hreinu.
Þegar skammt var liðið af seinni hálfleik bað Haukur Ingi um skiptingu í liði Fylkis en hann var draghaltur. Á 58. mínútu átti Gunnar Þór Pétursson skot í stöng Keflvíkinga og heimamenn sem fyrr sterkari aðilinn.
Á 70. mínútu fékk Hörður Sveinsson ákjósanlegt færi til þess að koma Keflavík í 0-1 þegar varnarmenn Fylkismanna hættu að veita honum eftirför, en þeir töldu hann rangstæðan, Hörður var þó réttstæður en Bjarni Þórður, markvörður Fylkis, varði slakt skot hans.
Hólmar Örn Rúnarsson reyndist svo hetja Keflavíkur á 76. mínútu þegar hann kom boltanum í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf. Eftir markið var mestur vindur úr heimamönnum og voru Keflvíkingar líklegri til þess að bæta við marki en Fylkismenn að jafna.
Eftir leik kvöldsins eru Keflvíkingar í 4. sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur stigum á eftir ÍA í 3. sætinu með 26 stig. Næsti leikur Keflavíkur er gegn Fram á Keflavíkurvelli sunnudaginn 11. september kl. 14:00.
Staðan í deildinni
VF-mynd/ Eygló Eyjólfsdóttir: Hólmar kemur knettinum í netið