Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík náði í mikilvægt stig gegn Blikum
Blikar sóttu hart að marki Keflavíkur en vörn þeirra átti frábæran dag í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 27. ágúst 2021 kl. 08:54

Keflavík náði í mikilvægt stig gegn Blikum

í gær gerði Keflavík jafntefli við Breiðablik, næstefsta lið Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu. Eftir að Keflavík hafði náð forystu snemma í leiknum jöfnuðu Blikar skömmu fyrir leikslok.

Leikurinn fór vel af stað fyrir Keflavík en strax á 4. mínútu áttu Keflvíkingar hættulega sendingu inn í teig Blika sem reyndu að koma boltanum í burtu en tókst ekki betur en svo að þær settu hann í eigið mark, sjálfsmark og Keflavík komið.

Blikar þjörmuðu vel að heimakonum en vörn Keflavíkur var einbeitt og átti góðan leik. Tiffany Sornpao greip vel inn í og hirti vel flestar fyrirgjafir sem Blikar sendu inn í teiginn auk þess að verja vel á mikilvægum augnablikum. Þá var Kristrún Ýr Holm á tánum og skilaði varnarhlutverkinu af stakri prýði í vörn Keflavíkur af öðrum varnarmönnum heimamanna ólöstuðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blikar áttu mörg hættuleg færi en vörn Keflavíkur gaf allt í leikinn og bjargaði nokkrum sinnum á síðustu stundu. Breiðablik virtist vera fyrirmunað að skora, þær áttu m.a. tvö sláarskot, en þegar tíminn var við það að renna út náðu Blikar að jafna leikinn (88'). Þá fylgdi sóknarmaður þeirra vel eftir skoti sem fór í varnarmann Keflavíkur og skoraði fram hjá Tiffany sem átti frábæran leik og gat lítið gert við markinu. Það er ekki hægt að segja annað en jöfnunarmarki Blika hafi verið sanngjarnt en þó var vafamál hvort leikmaður þeirra hafi verið rangstæður þegar boltinn barst til hennar.

Niðurstaðan 1:1 jafntefli og mikilvægt stig fyrir Keflavík í höfn í harðri baráttu þeirra fyrir veru sinni í deildinni en Keflavík er í þriðja neðsta sæti með þrettán stig. Í næstneðsta sæti eru Fylkiskonur með tólf stig og neðst er lið Tindastóls sem Keflavík mætir í næstu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Tindastóll hefur ellefu stig svo næsti leikur verður sannkallaður fallslagur og gríðarlega mikilvægur báðum liðum.

Kristrún Ýr Holm var örugg í öftustu línu heimamanna.

Fimmti flokkur sameiginlegs kvennaliðs Keflavíkur, Reynis og Víðis heiðraður í hálfleik.

Í hálfleik heiðruðu Keflvíkingar lið Keflavíkur, Reynis og Vísi fyrir frábært tímabil í sumar. Stelpurnar hafa staðið sig frábærlega á mótum og þær hafa sýnt að efniviður fyrir framtíð kvennafótbolta á Suðurnesjum er mikill. Áfram stelpur!

Það var glæsilegur hópur sem var heiðraður í hálfleik.