Keflavík missti leikinn í jafntefli á lokamínútunum
Keflavík lék gegn Augnabliki í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í gær. Fyrir leikinn sátu þær keflvísku í öðru sæti, einu stigi frá toppliði Tindastóls sem nú á leik til góða.
Snemma í leiknum lentu Keflvíkingar undir (10') og það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks að Marín Rún Guðmundsdóttir skoraði jöfnunarmark. 1:1 í hálfleik.
Keflvíkingar taka forystuna
Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn mjög vel og á 51. mínútu var Marín Rún aftur á ferðinni og kom þeim yfir. Fimm mínútum síðar bætti Ísabell Jasmín Almarsdóttir öðru marki við og staðan orðin vænleg fyrir Keflavík.
Þegar skammt var til leiksloka varð Þóra Kristín Klemenzdóttir fyrir því óláni að skora sjálfsmark (86') og á þriðju mínútu uppbótartíma náðu Augnabliksstúlkur að skora jöfnunarmarkið. 3:3 lokatölur og Keflavík því búnar að tapa fjórum stigum í síðustu tveimur leikjum.
Spennan magnast í toppbaráttunni
Með jafnteflinu getur Keflavík misst Tindastól fjórum stigum fram úr sér á toppi Lengjudeildarinnar en Tindastóll leikur gegn Víkingi í kvöld. Þá sigruðu Haukar ÍA í gær og eru aðeins einu stigi á eftir Keflavík í þriðja sætinu svo spennan er gríðarleg í deildinni.