Keflavík missti af titlinum
Keflvíkingum tókst ekki að hampa Íslandsmeistaratitlinum í Landsbankadeild karla í knattspyrnu, eftir 1-2 ósigur gegn Fram á Sparisjóðsvellinum í dag. Fyrir leikinn í dag þurftu heimamenn aðeins á sigri að halda til að tryggja sér Íslandsmeistaratitlinn í leik sem leikinn var á mjög slæmum Sparisjóðsvellinum í dag. Völlurinn var mjög blautur og áttu leikmenn mjög erfitt með að halda jafnvægi á vellinum.
Fram byrjaði betur í leiknum og var Hjálmar Þórarinsson ekki langt frá því að koma gestunum yfir, strax á 3ju mínútu. Keflvíkingar voru hins vegar betri það sem eftir var hálfleiksins og sköpuðu sér fjölmörg góð marktækifæri. Heimamenn léku undan vindi og átti markvörður Fram, Hannes Halldórsson, oft í vandræðum með að sparka boltanum frá marki sínu sem skapaði margar hættulegar sóknir fyrir Keflvíkinga.
Hólmar Örn Rúnarsson átti líklega besta færi fyrri hálfleiks, en gott skot hans fór hárfínt framhjá marki Fram. Staðan var því 0-0 þegar Jóhannes Valgeirsson flautaði til hálfleiks.
Í byrjun seinni hálfleiks sóttu Framarar meira að marki heimamanna. Ómar Jóhannsson varði frábærlega eftir atgang í teig heimamanna, og kom í veg fyrir að heimamenn lentu undir í leiknum. Það dró hins vegar til tíðinda á 54. mínútu leiksins þegar Guðmundur Steinarsson átti góða fyrirgjöf inn í teig Fram. Hannes í marki Fram, gerði sig sekan um slæm mistök þegar hann missti frá sér boltann og Símun Samuelsen var réttur maður á réttum stað og kom boltanum yfir línuna af miklu harðfylgi. Stuðningsmenn Keflvíkinga ærðust að fögnuði og titilinn var í sjónmáli.
Símnun var nálægt því að koma Keflvíkingum í 2-0 skömmu síðar þegar hann komst einn í gegnum vörn Fram. Hann reyndi að leika á Hannes í markinu sem virtist fella Símun í kjölfarið. Dómarinn sá hins vegar ekki ástæðu til að gefa Símun vítaspyrnu og veitti honum einnig gula spjaldið fyrir leikaraskap. Símun var langt frá því að vera sáttur og hafði e.t.v. eitthvað til síns máls.
Þetta atvik reyndist vera vendipunkturinn í leiknum. Sjö mínútum síðar var Almarr Ormarsson búinn að jafna leikinn eftir góðan undirbúning frá Paul McShane. Almarr var nýkominn inn á sem varamaður og var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn.
Eftir jöfnunarmarkið reyndu heimamenn að byggja upp sóknir, en náðu ekki að leika boltanum nægilega vel sín á milli og hafði völlurinn e.t.v. eitthvað um það að segja. Það kom því eins og köld vatnsgusa framan í andlit Keflvíkinga þegar að Hjálmar Þórarinsson kom Fram yfir á 79. mínútu, enn og aftur eftir góðan undirbúning frá Paul McShane, sem var besti maður vallarins í dag. Hjálmar slapp einn inn fyrir vörn Keflvíkinga eftir snarpa skyndisókn og brást ekki bogalistin.
Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn, en náðu ekki að skapa sér nein teljandi færi. Keflvíkingar urðu því af Íslandsmeistaratitlinum og þurfa að bíða í a.m.k. eitt ár til viðbótar.
Gríðarleg vonbrigði fyrir Keflvíkinga sem höfðu leikið frábærlega í sumar. FH tryggði sér hins vegar titilinn með góðum, 0-2 sigri á Fylki í dag.
Lokastaðan í Landsbankadeild karla.
VF-MYNDIR/JJK