Keflavík með mikilvægan sigur á Breiðabliki
Keflavík var rétt í þessu að vinna mikilvægan sigur á Breiðabliki á Sparisjóðsvellinum í Reykjanesbæ í Landsbankadeild karla. Lokatölur leiksins urðu 3-1 eftir að gestirnir úr Kópavoginu höfðu komist yfir rétt fyrir leikhlé. Þar var að verki Jóhann Berg Guðmundsson, sem lét skot vaða af um 25 metra færi. Stórglæsilegt mark og gestirnir höfðu yfir í hálfleik.
Keflvíkingar bitu í skjaldarendur í seinni hálfleik og á 48. mínútu jafnaði Patrik Redo leikinn af stuttu færi eftir sendingu frá Guðmundi Steinarssyni. Guðmundur kom Keflvíkingum yfir á 62. mínútu þegar skot hans af þröngu færi rataði í markið. 17. markið hjá Guðmundi í Landsbakadeildinni í sumar. Það var svo Patrik Redo sem rak lokasmiðshöggið í sigri heimamanna þegar hann skoraði þriðja markið á 81. mínútu.
Glæsilegur sigur hjá Keflvíkingum sem er nú komnir í þægilega stöðu um Íslandsmeistaratitlinn. Keflvíkingar hafa hlotið 46 stig eftir 20 leiki og hafa nú átta stiga forskot á FH sem þó á tvo leiki inni á Keflavík. FH leikur gegn Fram á heimavelli í kvöld.
VF-Mynd/Hilmar Bragi: Keflvíkingar höfðu ástæðu til að fagna í kvöld.