Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík með magnaðan sigur á Blikum
Keflavík komið yfir. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 4. maí 2022 kl. 23:29

Keflavík með magnaðan sigur á Blikum

Kefllavík er með fullt hús stiga í Bestu deild kvenna eftir stórkostlega frammistöðu og sigur á Breiðabliki í kvöld. Samantha Leshnak Murphy, markvörður Keflvíkinga, sýndi heimsklassa markvörslu og hélt hreinu en Blikar sóttu stíft og hún þurfti oft að taka á honum stóra sínum.

Keflavík - Breiðablik 1:0

(Amelía Rún Fjeldsted 34')

Gunnar M. Jónsson, þjálfari Keflvíkinga, var að vonum kátur að leikslokum. Hann var ánægður með agaðan leik síns liðs og sagði að það hefði verið vitað fyrirfram að Keflavík væri ekki að fara að spila sóknarbolta gegn þessu liði.

Amelía Rún kemur Keflavík yfir með skalla.

Það gekk eftir, Blikar sóttu meira en fundu enga glufu í sterkri vörn Keflvíkinga. Samantha Leshnak Murphy, markvörður Keflavíkur, var öryggið uppmálað í teignum og hirti allar fyrirgjafir og sendingar sem komu nærri markinu. Kefllavík sótti hratt þegar færi gafst og skapaðist nokkrum sinnum hætta upp við mark gestanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir rúmlega hálftíma leik fengu Keflvíkingar hornspyrnu sem Aníta Lind Daníelsdóttir tók frá hægri. Hornspyrnan var vel tekin inn í markteig Blika þar sem Sigurrós Eir Guðmundsdóttir rétt missti af boltanum en það gerði Amelía Rún Fjeldsted ekki. Amelía var hárrétt staðsett og afgreiddi með góðum skalla í mark Breiðabliks (34'), staðan orðin 1:0 fyrir Keflavík.

Einu marki yfir í hálfleik vissu Keflvíkingar að Blikar myndu sækja fast í seinni hálfleik. Vörn Keflavíkur var vandanum vaxin og eins og fyrr segir var Murphy alltaf á réttum stað í markinu og greip oft inn í á mikillvægum stundum. Hún sýndi svo truflaða markvörslu þegar sóknarmaður Blika tók viðstöðulaust skot og smelllhitti á markið – en Murphy varði hreint ótrúlega.

Murphy „átti teiginn“ og var maður leiksins – um það þarf ekki að deila.

Þegar komið var fram í uppbótartíma fengu Blikar dæmda vítaspyrnu og bæði áhorfendum og leikmenn gripu um höfuð sér í svekkelsi. Fyrrum fyrirliði Keflavíkur, Natasha Anasi, steig á vítapunktinn en Murphy kórónaði frábæran leik með enn einni markvörslunni. Blikar fengu horn og aftur gerðist Anasi nærgöngul við mark Keflavíkur þegar skalla frá henni var bjargað nánast á línu. Þegar dómarinn blés leikinn af ærðust Keflvíkingar af fögnuðu enda tilefni til að fagna.

Natasha Anasi steig á vítapunktinn en Samantha Murphy varði örugglega frá henni. Fögnuður Keflvíkinga var mikill og verðskuldaður.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Keflavík - Breiðablik (1:0) | Besta deild kvenna 4. maí 2022