Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

  • Keflavík með annan fótinn í úrslitakeppnina
    Davon Usher var maður leiksins í Grindavík
  • Keflavík með annan fótinn í úrslitakeppnina
    Hjörtur Hrafn átti mjög góðan leik fyrir Njarðvíkinga í Borgarnesi
Fimmtudagur 5. mars 2015 kl. 20:47

Keflavík með annan fótinn í úrslitakeppnina

Njarðvík með sannfærandi sigur í Fjósinu

Keflvíkingar fóru langleiðina með að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni í Dominos deild karla með gríðarlega mikilvægum útisigri á grönnum sínum í Grindavík, 81-89.

Liðin skiptust á að leiða nær allan fyrri hálfleikinn og munaði ekki nema einu stigi á liðunum þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik, 43-42. 

Public deli
Public deli

Keflvíkingar mættu grjótharðir til leiks í 3. leikhluta og áttu Grindvíkingar í tómu basli með að finna körfuna gegn sterkri vörn gestanna. Ef ekki hefði verið fyrir klaufalega sóknartilburði Keflvíkinga oft á tíðum í leikhlutanum hefðu þeir gert út um leikinn í fjórðungnum en Grindvíkingar gerðu nóg til að halda sér inni í leiknum og munaði 9 stigum á liðunum eftir 3. leikhluta. 

Áhlaup heimamanna í 4. leikhluta gerði leikinn svo mjög spennandi og þegar Ólafur Ólafsson minnkaði muninn í 3 stig með annarri þriggja stiga körfu sinni í röð þegar um 3 mínútur lifðu leiks fór um marga Keflavíkurmegin í stúkunni. Davon Usher sá svo um að eyðileggja endurkomuballið fyrir þeim gulklæddu og þegar hann fann Þröst Leó galopinn í þriggja stiga skoti í horninu eftir gegnumbrot sitt voru úrslitin ráðin. 

Davon Usher (21 stig/10 fráköst), Damon Johnson (21 stig) og Guðmundur Jónsson (12 stig) voru atkvæðamestir hjá Keflavík í kvöld en í liði heimamanna voru það Rodney Alexander (34 stig/12 fráköst) og Jóhann Árni Ólafsson (12 stig/5 fráköst/4stoðsendingar) sem að spiluðu best í nokkuð bragðdaufu Grindavíkurliði sem að sýndi aldrei sitt rétta andlit í kvöld m.v. síðustu leiki.

Keflvíkingar voru loks fullmannaðir eftir að hafa glímt við meiðsli lykilmanna og þá snéri Þorleifur Ólafsson aftur á fjalirnar eftir langa fjarveru í liði Grindavíkur.

Í Borgarnesi sóttu Njarðvíkingar góðan sigur á Skallagrími, 96-108 en Njarðvíkingar leiddu allann leikinn og höfðu 10 til 12 stiga forystu nánast frá byrjun til enda.

Stefan Bonneau hélt áfram uppteknum hætti og skoraði 35 stig í liði Njarðvíkur og þá áttu þeir Hjörtur Einarsson (19 stig/6 fráköst), Logi Gunnarsson (18 stig/5 fráköst) og Mirko Virijevic (13 stig/11 fráköst) allir skínandi leik.

Í liði Skallagríms voru það Suðurnesjamenn sem að drógu vagninn en þeir Páll Axel Vilbergsson (24 stig) og Magnús Gunnarsson (16 stig) voru iðnir við kolann fyrir utan þriggja stiga línuna.

Staðan í deildinni er æsispennandi fyrir síðustu 2 umferðirnar og ómögulegt að segja til um hvaða lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Sigri Keflvíkingar Snæfell í næstu umferð er þó ljóst að öll Suðurnesjaliðin halda áfram keppni að lokinni deildarkeppninni.