Keflavík mætir Stjörnunni í kvöld
Ellefta umferð Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu heldur áfram í kvöld þegar tveir leikir fara fram. Keflavík mætir Stjörnunni á Keflavíkurvelli og Breiðablik mætir Þór/KA í Kópavogi. Umferðinni lýkur svo annað kvöld þegar Fjölnir og KR mætast á Fjölnisvelli.
Leikur Keflavíkur og Stjörnunnar hefst kl. 19:15 á Keflavíkurvelli en Keflavík getur styrkt stöðu sína í 3. sæti deildarinnar og komist í 18 stig með sigri í kvöld. Takist Stjörnunni að knýja fram sigur jafna Garðbæingar Keflavík að stigum. Stjarnan er nú í 5. sæti með 12 stig en þegar liðin mættust fyrr í sumar höfðu Stjörnukonur 3-1 sigur í Garðabæ.