Keflavík mætir Mydtjylland í Evrópukeppninni
Keflavík mætir danska liðinu FC Mydtjylland í 1. umferð undakeppni UEFA-keppninnar í knattspyrnu. FC Mydtjylland er frá Herning og endaði í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið leikur á nýjum velli, SAS Arena, sem tekur 12.500 áhorfendur. Þess má geta að þeir Guðmundur Mete og Nicolai Jörgensen, leikmenn Keflavíkur, voru báðir í herbúðum danska liðsins fyrir nokkrum árum. KR leikur gegn sænska liðinu Häcken í sömu keppni.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, sagði í samtali við Víkurfréttir að Keflavík hefði vart getað fengið sterkara lið í drættinum. „Mydtjylland er geysilega sterkt lið og það verður gaman og spennandi að eiga við þá. Liðið var stofnað árið 1999 úr þremur liðum á Jótlandi og eru sennilega eitt sterkasta liðið í þessum drætti sem við gátum hugsanlega mætt. Það bendir allt til þess að fyrsti leikurinn verði í Keflavík þann 19. júlí þar sem þeir eru að vinna í vellinum sínum í Danmörku. Útileikurinn yrði þá væntanlega í Danmörku 2. ágúst,” sagði Kristján sem á von á upptökum af leikjum Mydtjylland svo Keflvíkingar geti stúderað liðið í þaula.
„Við munum leita allra leiða til þess að fræðast um þá og það er því ekki úr vegi að ræða við Hólmar Örn Rúnarsson og Hörð Sveinsson sem báðir hafa leikið gegn þessu liði í dönsku úrvalsdeildinni,” sagði Kristján en eins og boltaáhugamenn vita þá eru Hólmar og Hörður Keflvíkingar góðir.
VF-mynd/ Hilmar Bragi Bárðarson