Keflavík mætir Mainz
Keflvíkingar mæta þýska liðinu FSV Mainz í 2. umferð í forkeppni UEFA bikarsins. Dregið var í hádeginu í dag en meðal liða sem Keflvíkingar hefðu getað mætt voru FC København og Esbjerg fB.
Fram kemur á vísi.is að FSV Mainz 05 hafi endað í 11. sæti í þýsku Bundesligunni í fyrra, unnið 12 leiki af 34 og tapað 15. Markatalan var 50-55 þeim í óhag. Mainz fékk Prúðmennsku-sæti UEFA (UEFA Fair Play) í UEFA-bikarnum og er í fyrsta sinn í sögu félagsins í Evrópukeppni. Liðið sló út MIKA frá Armeníu í fyrstu umferðinni, vann fyrri leikinn á heimavelli 4-0 og gerði síðan markalaust jafntefli í Armeníu.
Kristján Guðmunsson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Bylgjuna í dag að sér litist vel á Mainz og var hann nokkuð viss um að liðið væri mjög sterkt. Kristján gerði einnig ráð fyrir því að Mainz væri margfalt sterkara en FC Etzella sem Keflvíkingar slógu út úr keppninni.
VF-mynd/ Keflavík fagnar bikarmeistaratitlinum í fyrra.