Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík mætir Keflavík til styrktar Magnúsi og fjölskyldu
Þriðjudagur 6. febrúar 2007 kl. 17:40

Keflavík mætir Keflavík til styrktar Magnúsi og fjölskyldu

Orðaskak lykilmanna og þjálfara, spennan magnast

 

Á föstudag verður sannkallaður stórleikur í Sláturhúsinu í Keflavík þegar Bikarmeistarar Keflavíkur í knattspyrnu mæta deildarmeisturum Keflavíkur í körfuknattleik. Já, liðin mætast á parketinu í Sláturhúsinu þar sem knattspyrnuliðið mun hefja leik með 60-0 forystu og fær að hafa sex leikmenn inni á vellinum. Leikið verður samkvæmt reglum Iceland Express deildarinnar, að því frátöldu að fótboltaliðið verður með sex leikmenn inni á vellinum, en leiktíminn er 40 mínútur.

 

Körfuknattleiksliðið og knattspyrnuliðið hafa haft þennan sið á síðustu ár að mætast í knattspyrnu og körfubolta og nú er komið að körfuboltaleiknum. Aðgangseyrir verður kr. 500 og mun allur ágóðinn renna til Magnúsar Þórs Gunnarssonar, fyrirliða körfuboltaliðs Keflavíkur, og fjölskyldu hans en Magnús og fjölskylda misstu allt sitt í húsbruna á dögunum.

 

Sigurður Ingimundarson, þjálfari körfuboltaliðsins, og Guðmundur Steinarsson, fyrirliði knattspyrnuliðsins, ætla hvergi að gefa eftir og eru ekki sparir á stóru orðin.

 

,,Við ætlum að kenna þeim að spila flottan körfubolta,” sagði Guðmundur í samtali við Víkurfréttir. ,,Við höfum skorað mikið á þá í fótboltanum og á því verður engin breyting í körfunni á föstudag,” sagði Sigurður svo það er ljóst að liðin mætast stál í stál í Sláturhúsinu, bæði á heimavelli. ,,Við mætum með okkar útlendingahersveit, við erum með tveggja metra Svía, Færeying, hálf Færeying og einn þriðja Tyrkja og nokkra rauðhærða svo við erum í góðum málum,” sagði Guðmundur og benti á að körfuboltaliðið væri aðeins með einn erlendan leikmann. Sigurður hafði litlar áhyggjur af útlendingum knattspyrnuliðsins og benti réttilega á að nú væri undirbúningstímabil í fótboltanum og enginn þar kominn í form. ,,Þeir eru í svo slöku formi að þeir springa í fyrri hálfleik. Við gætum þurft að leyfa þeim að vera með fleiri leikmenn en sex inni á vellinum,” sagði Sigurður.

 

Af orðum Sigurðar og Guðmundar að ráða sést að hvorugur er tilbúinn til þess að sætta sig við ósigur á föstudag og krefjast þeir báðir mikils stuðnings af íbúum Suðurnesja.

 

Guðmundur bætti því við að knattspyrnuliðið myndi á föstudag tefla fram svakalegu leynivopni gegn körfuboltaliðinu og að sjón væri sögu ríkari. Sigurður hafði litlar áhyggjur af leynivopninu enda hefði hann tvo Strandamenn í sínum röðum og væri því í góðum málum.

 

Eins og áður hefur komið fram mun allur ágóðinn af leiknum renna til Magnúsar Þórs og unnustu hans Kristjönu og nýfædds barns þeirra en fjölskyldan varð fyrir því áfalli á dögunm að íbúð þeirra í Reykjanesbæ brann. Liðsfélagar Magnúsar hafa komið upp styrktarreikningi í Landsbankanum í Keflavík þar sem tekið er á móti frjálsum framlögum. Reikningsnúmerið er eftirfarandi:

 

Landsbankinn í Keflavík

0142-05-3358

Kt: 070281-4309

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024