Keflavík lá gegn KR
KR konur gerðu góða ferð til Keflavíkur í kvöld þegar liðið hafði 3-0 sigur á Keflavík í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Hólmfríður Magnúsdóttir gerði tvö mörk fyrir KR en varamaðurinn Margrét Þórólfsdóttir gerði þriðja og síðasta mark leiksins.
Gestirnir úr vesturbænum voru sterkari í upphafi leiks og fékk Fjóla Friðriksdóttir gott færi á 16. mínútu en skaut framhjá. Keflavíkurkonur komust þó hægt og sígandi inn í leikinn og tvívegis fékk Nína Ósk Kristinsdóttir gullið tækifæri til þess að skora fyrir Keflavík en skaut í bæði skiptin beint á Sigrúnu Ingólfsdóttur í KR markinu.
Á 40. mínútu dró svo til tíðinda þegar Hólmfríður kom KR í 1-0 en markið kom þegar Keflvíkingar virtust vera að færa sig upp á skaftið. Liðin héldu til leikhlés í stöðunni 1-0 KR í vil.
Keflavíkurkonur voru sprækar í upphafi síðari hálfleiks en þeim tókst ekki að skora þrátt fyrir harða atlögu að marki KR en Keflavík átti m.a. stangarskot. Rétt eins og í fyrsta markinu þá voru Keflavíkurkonur sterkari aðilinn þegar KR brunar upp völlinn og breytir stöðunni í 2-0. Þar var Hólmfríður aftur að verki er hún skaut föstu skoti að markinu sem var óverjandi fyrir Þóru Rögnvaldsdóttur.
Ólöf Helga Pálsdóttir gerði mark fyrir Keflavík en það var dæmt af sökum rangstöðu og það virtist taka allan vind úr Keflavíkurliðinu sem var ekki sátt við aðstoðardómara leiksins og fannst þeim helst til of oft dæma rangstöður.
Margrét Þórólfsdóttir rak svo smiðshöggið þegar um 10 mínútur voru til leiksloka og 3-0 sigur KR í höfn. Keflavík er sem fyrr í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en KR er í 3. sæti með 21 stig.
„Við spiluðum ekki nægilega vel í kvöld, alls ekki nógu vel til þess að leggja lið eins og KR að velli,“ sagði Gunnlaugur Kárason, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn.
Næsti leikur Keflavíkur er á föstudag þegar þær mæta Breiðablik í VISA bikarkeppninni.
Staðan í Landsbankadeild
VF-myndir/ [email protected]